Könnun um sorphirðu í þéttbýli sveitarfélagsins
Könnunin varðar breytingar á núverandi sorphirðukerfi í samræmi við lagabreytingar sem taka gildi árið 2023.
Vegna dræmrar þátttöku í könnuninni í desember er opnað fyrir hana á ný og nýjum valkosti bætt við. Íbúar eru hvattir til að taka afstöðu til fyrirkomulags sorphirðu í þéttbýli næstu árin. Þeir sem tóku þátt í könnuninni í desember þurfa ekki að kjósa á ný en geta breytt fyrra atkvæði enda hafa verið gerðar smávægilegar breytingar á valmöguleikum og nýjum bætt við.
Á þessu ári er sveitarfélögum skylt að safna fjórum úrgangsflokkum við hvert heimili í þéttbýli þ.e. pappa og pappír, plasti, matarleifum og blönduðum úrgangi. Úrgangsflokkarnir verða að vera aðskildir við söfnun og því er nauðsynlegt að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi en í dag eru almennt þrjár tunnur við hvert heimili: endurvinnslutunnan (240 lítra), tunna undir blandaðan úrgang (240 lítra) og tunna undir matarleifar (140 lítra).
Söfnunina má framkvæma með ýmsum hætti og því vill sveitarfélagið kanna afstöðu íbúa í þéttbýli til mögulegra breytinga. Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.
Könnunin stendur yfir frá 19. janúar – 2. febrúar og má nálgast með því að smella hér.
Í könnuninni er hægt að velja um þrjá möguleika og eru helstu kostir og gallar þeirra dregnir saman hér að neðan. Þátttakendur könnunarinnar geta einnig skrifað nafnlausar athugasemdir við valkostina og þannig komið sinni skoðun á framfæri. Kosið er með því að ýta á þumalinn við viðkomandi valkost.
Um viðhorfskönnun er að ræða og er hún því ekki bindandi. Markmið könnunarinnar er fyrst og fremst að kanna hvaða fyrirkomulag íbúar í þéttbýli myndu helst vilja við söfnun úrgangs frá heimilum.
Í könnuninni má velja milli þriggja valkosta:
Með valkosti 1 yrðu fjórar tunnur við hvert heimili í þéttbýli undir pappír og pappa (240 lítra), plastumbúðir (240 lítra), matarleifar (140 lítra) og blandaðan úrgang (140 lítra). Hægt væri að skipta minni tunnu undir blandaðan úrgang (140 lítra) út fyrir stærri tunnu (240 lítra) og greiða aukalega fyrir hana.
Kostir | Gallar |
· Mest rúmmálsmagn fyrir íbúa. · Mestur sveigjanleiki við ákvörðun á hirðutíðni. · Bestun á hirðutíðni lágmarkar kostnað fyrir íbúa til framtíðar. · Hentugasta umgengnin fyrir sorphirðuaðila. |
· Tekur mest pláss á lóð íbúa og getur spillt ásýnd heimila. · Sum sorpskýli aðeins gerð fyrir þrjár tunnur. · Byrjunarkostnaður fyrir íbúa að koma upp aðstöðu fyrir fjórðu tunnuna. · Hentar verr fyrir þá sem losa sig við lítinn úrgang. |
Með valkosti 2 yrðu þrjár tunnur við hvert heimili í þéttbýli undir: pappír og pappa (240 lítra), plastumbúðir (240 lítra), blandaðan úrgang (140 lítra) og ílát undir matarleifar (35 lítra). Hægt væri að skipta minni tunnu undir blandaðan úrgang (140 lítra) út fyrir stærri tunnu (240 lítra) og greiða aukalega fyrir hana.
Kostir | Gallar |
· Sami fjöldi tunna héldist á lóðum og nú er. · Sorpskýli undir þrjár tunnur myndu nýtast áfram. · Myndi leiða til tíðari hirðu á matarleifum (tæmt á 14 - 21 daga fresti) = betri þjónusta. · Hentar þeim sem losa sig við lítinn úrgang. · Passar í flestar 240 lítra tunnur. · Fljótlegt að innleiða. · Auðveldara að þrífa ílát undir matarleifar en tunnu s.s. vegna ólyktar. |
· Minni sveigjanleiki við ákvörðun á hirðutíðni (æskilegt að tæma á 14 daga fresti). · Tíðari hirða eykur kostnað fyrir íbúa til framtíðar. · Um 15% minna magn kæmist í þá tunnu sem ílátið væri í. · Hentar verr fyrir þá sem losa sig við mikinn úrgang. · Torveldar umgengni fyrir sorphirðuaðila – þarf að meðhöndla ílát sem geta verið óþrifleg og þung. · Fremur lítill verðmunur á íláti undir matarleifar og tunnu. |
Með valkosti 3 yrði farin blönduð leið.
Fjórar tunnur við hvert heimili yrði meginreglan með möguleika á breytingum. Tvær tunnur (240 lítra) undir pappír og pappa annars vegar og plastumbúðir hins vegar, og tvær tunnur (140 lítra) undir matarleifar og blandaðan úrgang.
Þeir sem myndu ekki vilja fjórðu tunnuna gætu óskað eftir íláti undir matarleifar (35 lítra) og sett það ýmist í tunnu undir plastumbúðir eða pappír og pappa. Ílátið myndi ekki kosta minna en tunna undir matarleifar.
Þá væri einnig hægt að skipta minni tunnu (140 lítra) út fyrir stærri tunnu undir blandaðan úrgang (240 lítra) og greiða aukalega fyrir hana.
Kostir | Gallar |
· Mestur sveigjanleiki fyrir íbúa. Kerfið tæki mið af þörfum notenda. · Sorpskýli undir þrjár tunnur myndu nýtast áfram. · Getur boðið upp á mest rúmmálsmagn fyrir íbúa. · Sami fjöldi tunna og nú er gæti haldist. · Sorpskýli undir þrjár tunnur gætu áfram nýst. · Leiðir til tíðari hirðu á matarleifum (tæmt á 14 – 21 daga fresti) = betri þjónusta. · Ákveðinn millivegur fyrir sorphirðuaðila og íbúa. |
· Minni sveigjanleiki við ákvörðun á hirðutíðni (æskilegt að tæma 35 lítra ílát á 14 daga fresti). · Tíðari hirða eykur kostnað fyrir íbúa. · Um 15% minna magn kæmist í þá tunnu sem ílátið væri í. · Torveldar umgengni fyrir sorphirðuaðila – þarf að meðhöndla ílát sem geta verið óþrifleg og þung. · Meira utanumhald við ílátaskráningu. |
Vakni frekari spurningar eða athugasemdir er íbúum sveitarfélagsins velkomið að hafa samband við verkefnastjóra umhverfismála í síma 470-8007 eða í gegnum netfangið: stefan@hornafjordur.is.