Kvennafrídagurinn á Höfn

25.10.2016

Kvennafrídagurinn var haldinn hátíðlegur á Höfn eins og mörgum stöðum á landinu.

Konur söfnuðust saman við AFL starfsgreinafélag og fóru í kröfugöngu að Hótel Höfn þar sem haldinn var baráttufundur.

Yfir eitt hundrað konur tóku þátt í kröfugöngunni og enn fleiri mættu á hótelið til að hlýða á erindi og tónlistaratriði. 

Í barátturæðum kom fram að frá upphafi kvennafrídagsins 1975 hafa konur þurft að berjast gegn launamuni kynjanna því lítið þokast í að honum verði útrýmt. Kynbundinn launamunur hefur mælst frá upphafi launakannanna, þegar um kynbundinn launamun er að ræða þá er búið að leiðrétta launamuninn með tilliti til þátta eins og vinnutíma, menntun og starfsaldurs. Í launakönnunum AFL  þá kemur fram að kynbundinn launamunur eykst sl. ár kynbundinn launamunur  af dagvinnulaunum var 8,7% árið  2011,  árið 2014 14,9% og 2015 17,6%  sem er algjörlega óásættanlegt. Það kom fram að orsakir kynbundins launamunar eru margar en megin orsakir felast í tvískiptum vinnumarkaði, aukagreiðslum til karla frekar en kvenna. Tengslanet  karlaveldisins hefur áhrif á möguleika á starfsframa kynjanna þeir standa saman án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því og nota sín viðmið og gildi.  Launamunur er enn meiri þar sem launaleynd ríkir.

Fundarkonur voru sammála um að baráttunni verði að halda áfram þar til launamuni kynjanna verði útrýmt. Mikil samstaða var á meðal fundarkvenna og ríkti baráttuandi yfir fundinum. Fundurinn endaði á fjöldasöng þar sem sunginn var baráttusöngurinn Áfram stelpur.