Leikskólinn Sjónarhóll opnaður
Síðustu viku var starfsfólk leikskólans Sjónarhóls önnum kafið við að taka upp úr kössum, stilla upp húsgögnum og koma öllu fyrir ásamt því að skipuleggja starfsemi skólans og undirbúa komu nemenda sinna.
Samhliða þessum verkefnum hefur starfsfólkið einnig setið fjölda námskeiða m.a. um uppeldi til ábyrgðar, uppeldi sem virkar, Lubbi finnur málbein, tákn með tali o.fl.
Síðast liðinn mánudag hófst svo innritun barna í nýja skólann og gengur innritunin samkvæmt áætlun. Í byrjun september munu öll börn sem voru á biðlista og orðin eins árs fyrir sumarfrí verða innrituð í leikskólann.
Verkefnið framundan er að ljúka við að skipuleggja innra starfið s.s. dagskipulag og hópastarf, skólanámskrá, læsisstefnu skólans og útfæra verkefni eins og heilsueflandi leikskóli o.fl.
Að loknu mesta amstrinu í kringum opnun skólans og innritun barnanna verður íbúum sveitarfélagsins boðið að koma og skoða skólann og sama dag verður hann formlega vígður. Þegar dagsetning og skipulag vígsludagsins liggur fyrir verður viðburðurinn auglýstur.