Matjurtagarðar á Höfn
Á tímum þar sem heimsfaraldur geisar er ekki frá því komist að leiða hugann að sjálfbærni og hvernig fólk getur ræktað sitt eigið grænmeti.
Að rækta matvæli í þéttbýli er ekki nýtt fyrirbæri, hægt er að sjá dæmi um slíkt um allan heim. Hér á Íslandi höfum við til dæmis langa hefð fyrir skólagörðum, þar sem börn hafa fengið tækifæri til þess að læra matjurtaræktun, og bæjarfélög um allt land bjóða íbúum sínum svæði til matjurtaræktunar. Á Íslandi getum við auðveldlega ræktað allt það grænmeti sem við þurfum, með mismunandi aðferðum og tækni getum við fengið fjölbreytta uppskeru.
Samfélagsmatjurtargarðar eða félagsbúskapur hefur orðið vinsælli á seinustu árum og eru dæmi um slíkt meðal annars í Breiðholti í Reykjavík og á Ísafirði.
Þeir sem hafa áhuga á slíku geta horft á innslagi frá Landanum á RÚV sem sýnt var 29. mars síðastliðinn. Einnig er hægt að finna fyrirlestur á Youtube um félagslandbúnað: Fyrirlestur um félagslandbúnað.Áhugasamir um félagslandbúnað geta nálgast hópinn og umræður á fésbókinni Félagslandbúnaðurí Hornafirði og óskað eftir inngöngu.
Samþykkt var á síðasta umhverfis- og skipulagsnefndarfundi að hefja vinnu við gerð matjurtagarða á Höfn. Garðarnir gætu nýst einstaklingum, félagasamtökum eða skólagarðar. Eitt af áherslumálum umhverfisstefnu sveitarfélagsins er að tryggja framboð svæða til matjurtaræktunar og að hvetja íbúa til ræktunar. Á næstu vikum verða garðarnir útbúnir og í kjölfarið auglýstir og úthlutaðir.
Nýju matjurtagarðarnir koma ekki í staðin fyrir kartöflugarðana sem eru á Höfn, þeir eru hugsaðir sem viðbót við það sem nú þegar fer fram.
Ef fólk hefur áhuga á að forspíra grænmeti eða kryddjurtir þá er rétti tíminn núna.
Sjáumst í matjurtagörðunum í sumar!
Anna Ragnarsdóttir Pedersen, umhverfisfulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar.