Menningarhátíð Hornafjarðar, Fókus hlaut menningarverðlaun

11.3.2024

Föstudaginn 8. mars var mikið um dýrðir hér í Hornafirði, en þá var haldin vegleg menningarhátíð Hornafjarðar í Nýheimum. 

Menningarverðlaun, umhverfisviðurkenningar og styrkir voru afhent. Alls voru 25 styrkir veittir, það voru styrkir atvinnu- og menningarmálanefndar, bæjarráðs, fræðslu- og tómstundanefndar, og styrkir úr atvinnu- og rannsóknasjóði.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri setti hátíðina og kom fram í máli hans að Menningarstarf skiptir okkur öll máli. Það þróar okkar sjálfsmynd, stolt og meðvitund fyrir uppruna. Menning eflir líka samheldni þar sem slík starfsemi leiðir saman fólk af ólíkum uppruna og byggir brýr á milli ólíkra hluta samfélagsins. Menningarstarf stuðlar að auknum skilningi og umburðarlyndi – en í slíku samfélagi líður okkur öllum betur.

Menningarverðlaun fyrir árið 2023

Menningarverðlaun hafa verið veitt frá árinu 1994, til þeirra sem teljast hafa skarað fram úr á sviði lista, á árinu eða fyrir æviframlag. Að þessu sinni hlaut hljómsveitin Fókus verðlaunin fyrir Hljómsveitin Focus er okkur að góðu kunn, þær spiluðu fyrir okkur á Menningarhátíðinni fyrir ári síðan. Hljómsveitin Focus var stofnuð árið 2022 og hana skipa þær Amylee Trindade, Alexandra Hernandez, Anna Lára Grétarsdóttir og Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir. Í fyrra var Pia Wrede einnig í hljómsveitinni, hún var skiptinemi í FAS en er nú farin aftur heim. Amylee, Alexandra og Anna Lára hafa allar verið í Tónskóla Hornafjarðar og ég verð að segja að þær eru gangandi meðmæli með tónskólastarfinu. Allar þessar hæfileikaríku tónlistarkonur í hljómsveitinni Focus hafa náð ótrúlegum árangri: í fyrra sigruðu þær Músíktilraunir og í kjölfarið fengu þær tækifæri til að spila við ýmis tækifæri, meðal annars á tónlistarhátíðinni Airwaves 2023. Við erum öll stolt af hæfileikum þeirra og góðri frammistöðu hljómsveitarinnar, þær eru góð fyrirmynd fyrir ungt fólk í tónlist.

Þau sem einnig voru tilnefnd eru: Almar S. Atlason, Daníel Saulite, Guðbjartur Össurarson, Hafdís Hauksdóttir, Snæbjörn Brynjarsson, Þorrablót Hafnar

Atvinnu og Rannsóknarsjóður

Alls bárust atvinnumálanefnd fjórar umsóknir í sjóðinn og hljóðaði heildarupphæð þeirra upp á tvær milljónir og áttahundruð þúsund krónur, og voru alls ein milljón og sexhundruð þúsund krónur til úthlutunar. Þar af voru 650 þúsund krónur í A hluta hans, en úr honum er einu verkefni veittur styrkur árlega, og níuhundruð og fimmtíuþúsund krónur í B hluta sjóðsins, sem deilist á milli fleiri verkefna.

Eftirfarandi verkefni hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni:

A-hluti

Fuglaathugunarstöð Suðausturlands hlaut styrk upp á 650 þúsund krónur úr A sjóði fyrir verkefnið „Helsingjar á Suðausturlandi, aflestur litmerkja, talningar og merkingar“

Sumarið 2017 var byrjað að litmerkja helsingja í Sveitarfélaginu Hornafirði og hafa nú yfir 2000 helsingjar verið litmerktir auk þess sem 500 til viðbótar sem hafa fengið stálmerki. Vegna þessa öfluga merkingarstarfs og aflestri litmerkjanna, hefur verið er mögulegt að afla m.a. upplýsinga um aldur, farleiðir, varpsvæði og lífsafkomu helsingjanna. Með styrkveitingunni fæst ákveðin samfella í gagnaöflun á svæðinu og nýtast upplýsingarnar auk annars við ákvarðanatöku um veiðitíma fuglsins, eða þóknun til bænda vegna skaða sem fuglarnir valda á ræktarlöndum.

B-hluti

Þrjú verkefni hljóta styrk úr B hluta í ár, þar af eru tvö þeirra rannsóknarverkefni en eitt atvinnutengt.

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur tvo rannsóknarstyrki úr sjóðnum að þessu sinni.

Framhaldsrannsókn stofunnar um „Lífsferil Klettafrúr“ hlýtur styrk upp á þrjúhundruð tuttugu og fimmþúsund krónur. Klettafrúin sem er ein af einkennistegundum Suðausturlands, er sígræn og fjölær planta sem vex helst í klettum og björgum, og hérlendis finnst hún einungis á Suðaustur – og Austurlandi. Lífsferill klettafrúr á Íslandi er mikið til enn óþekktur og ekki er vitað hversu mörg ár plantan vex áður en hún blómgast og deyr, eða þá hversu mikil nýliðun er í stofninum og hversu margar ungplöntur má ætla að nái fullorðinsaldri og blómgast. Eru þetta allt lykilatriði til að meta hversu lífsseigur íslenski stofninn er og hversu viðkvæmur hann er fyrir áföllum og loftslagsbreytingum. Má þá einnig nefna að einungis er til ein ritrýnd grein um tegundina í heiminum en niðurstöður þessa verkefnis eru líklegar til að styrkja stoðir fyrir skrif vísindagreinar um klettafrú á Íslandi.

Náttúrustofan hlaut einnig jafnháan styrk til að hefja reglulegar talningar á landselum í Hornafirði og Skarðsfirði. Selastofninn hefur dregist saman um 70% frá því talningar á honum hófust á landinu árið 1980 og er hann í dag metinn í hættu á válista yfir íslensk spendýr. Er því markmið rannsóknarinnar að fá betri innsýn í hvernig þeir nýta svæðið og á hvaða hátt svæðið er þeim mikilvægt, með von um að fáist mikilvægar upplýsingar um leiðir til verndunar landselsins.

Síðast en ekki síst hlaut Bjarni Sigjónsson þrjúhundruð þúsund króna styrk til að kortleggja smölun sauðfjár í Hoffellslambatungum, og er markmiðið með verkefninu að útbúa greinargóð gögn sem nýliðar í smölun svæðisins geta stuðst við í framtíðinni.

Umhverfisviðurkenningar

Ásgerður Kristín Gylfadóttir og Xiaoling Yo verkefnastjóri umhverfismála, veittu umhverfisviðurkenningar fyrir hönd umhverfis- og skipulagsnefndar. Tilgangur viðurkenninganna er að vekja íbúa sveitarfélagsins til umhugsunar um gildi náttúru og umhverfis fyrir samfélag og atvinnulíf  og hvetja til þess að sýna henni tilhlýðilega virðingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Í ár voru veittar fjórar viðurkenningar.

Jónína Aðalbjörg Baldvinsdóttir og Guðlaugur Jón Vilhjálmsson hlutu viðurkenningu fyrir fallegan og snyrtilegan garð að Fákaleiru 9 á Höfn.

Hirðingjarnir hlutu umhverfisviðurkenningu fyrir starfs sitt í þágu hringrásarhagkerfisins og stuðning við gott málefni. Þeirra starf stuðlar að hringrásarhagkerfinu, hvetur fólk til að endurnýta hluti og lifa sjálfbærara lífi. Lögð er áhersla á að gefa vörum nýtt líf, spara auðlindir og kenna okkur mikilvægi þess að umgangast plánetuna okkar af virðingu.

Unnsteinn Guðmundsson og Hildigerður Skaftadóttir eða Gerða eins og við þekkjum hana flest. Hlutu umhverfisviðurkenningu fyrir snyrtilegan sumarbústað og umhverfi hans, Brekkukot í Stafafellsfjöllum í Lóni. Elja þeirra til að samþætta fegurð og umhverfisvernd stendur sem fyrirmynd um hinn fullkomna samruna mannlegrar nærveru og náttúrulegs umhverfis.

Fab Lab hlaut umhverfisviðurkenningu fyrir Reddingarkaffi í þágu hringrásarhagkerfisins. Reddingarkaffi er haldið með þeim formerkjum að fólk getur komið með hluti sem þarfnast viðgerðar og gert við í Vöruhúsinu eða fengið aðstoð við það.

Styrkir nefnda og bæjarráðs

Alls bárust 13 umsóknir um menningarstyrki, og eru þeir veittir félagasamtökum og einstaklingum til menningartengdra verkefna. Fram kom í máli Eyrúnar Helgu Ævarsdóttur að með þessum styrkjum vilji atvinnu- og menningarmálanefnd hvetja og styrkja félagasamtök og einstaklinga til frekari starfa í þágu menningar.

Eftirtalin félagasamtök hlutu styrk að þessu sinni: Rekstarstyrkir, Blús og rokkklúbbur Hornafjarðar, Kór eldri Hornfirðinga, Samkór Hornafjarðar, Karlakórinn Jökull, Kvennakór Hornafjarðar, Leikfélag Hornafjarðar.

Verkefnastyrkir, Hlynur Pálmasson hlaut styrk fyrir stuttmynd um fjölskyldu sem ferðast á jeppa sem þau missa í á og skilja eftir, en jeppinn virðist eiga sér framhaldslíf í ánni. Tómas Nói Hauksson fyrir kvikmynd sem gerist á suð austurlandi og fjallar um tvær manneskjur sem ferðast til Hafnar og ná góðri tengingu á leiðinni. Axel Bragi Andrésson fyrir sannsögulega skáldsögu, Siglt til Grimsby, hún Fjallar um siglingu á litlum trébát yfir til Grimsby og til baka í óveðri.

Félag harmonikkuunnenda fyrir hagyrðingakvöld, Eva Bjarnadóttir og Alice Sowa fyrir verkefnið stögum og lögum, textílviðgerðir og Nemendafélag FAS fyrir viðburðir og uppbrot.

Fræðslu og tómstundanefnd veitti styrki til Golfklúbbs Hornafjarðar til kaupa á golfhermi, Foreldrafélags Sjónarhóls til þess að halda litahlaup, Hestamannafélag Hornfirðingur fyrir knapamerki, Klifurfélag Öræfa fyrir klifurnámskeið og Körfuknattleiksdeild Sindra, yngri flokkar til þess að kaupa skotvél. 

Bæjarráð veitti styrki til, Vigdísar Maríu Borgarsdóttur fyrir 100 ára flugsögu á Íslandi en fyrsta flugvélin sem lenti hér á landi lenti á Suðurfjörunum fyrir 100 árum. Skógræktarfélags Austur- Skaftafellsýslu fyrir viðhald á mannvirkjum. Sóknarnefnd Hafnarkirkju fyrir barnastarf kirkjunnar og Leikfélag Hornafjarðar fyrir leiksýninguna Lísa í undralandi.

Athöfnin var hátíðleg að vanda Una Torfa flutti vel valin lög í tilefni dagsins og hitaði upp fyrir Norðurljósa Blúshátíð sem haldin er um helgina.

Öllum styrk- og verðlaunahöfum er óskað til hamingju.