• IMG_0535

Menningarverðlaun Hornafjarðar, Guðbjartur Össurarson hlaut menningarverðlaun

10.3.2025

Nú á föstudaginn var haldin hin árlega Menningarhátíð Sveitarfélagsins Hornafjarðar í Nýheimum. Hátíðin var vel sótt af íbúum og gestir um hundrað talsins. Menningarhátíðin, sem haldin er árlega föstudaginn fyrir blúshátíð, sameinar listir, menningu og samfélagsleg verkefni á svæðinu. Dagskráin var fjölbreytt og endurspeglaði þann kraft sem býr í menningarstarfi sveitarfélagsins, veittir voru styrkir, viðurkenningar og verðlaun til fjölbreytt hóps Hornfirðinga.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri setti hátíðina og kom fram í máli hans að Menningarstarf skiptir okkur öll máli, við værum saman komin til að fagna framtakssömu fólki fyrir framlag þeirra til menningar í Hornafirði. Menningarstarf stuðlar að auknu samtali, samveru og umburðarlyndi, en í slíku samfélagi líður okkur öllum betur.

Skemmtiatriði hátíðarinnar í ár var með Hornfirsku leikhúsþema en fyrst tók leiklistarhópur Ágústu Margrétar lagið úr sýningu sem sýnd var á Hafinu í aðventunni, þá tóku fulltrúar Leikfélags Hornafjarðar tvö vel valin lög úr söngleiknum Hárinu sem nú er verið að setja upp í Mánagarði. Virkilega vönduð og hrífandi framkoma í þessum fjölbreytta hópi.

IMG_7182Hressir krakkar úr leiklistahóp Ágústu Margrétar

IMG_7359Leikfélag Hornafjarðar flutti lag úr Hárinu

Á hátíðinni í ár voru alls 32 einstaklingar, félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki heiðruð.

Atvinnu- og rannsóknarsjóður veitti sex styrki í ár fyrir tæpar tvær milljónir króna. Ágústa Margrét Arnardóttir hlaut styrki fyrir verkefnin „Hvetjandi heimur Hvað“ og „Dokk“, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands hlaut styrk fyrir verkefnið „Heilsingjar á Suðausturlandi- gagnaskráning“, Náttúrustofa Suðausturlands hlaut styrki fyrir verkefnin „Kortlagning jarðmyndanna við Höfn í Hornafirði“ og „Niturnám og uppsöfnun þess í kolefnissnauðum jarðveg“ og Grænalaust nýsköpun ehf hlaut styrk fyrir „Ullarkögglar - product testing“.

Menningarstyrkir ársins hjá Atvinnu- og menningarmálanefndar voru fjölbreyttir. Umsóknirnar hljóðuðu uppá tæpar sex milljónir en 11 styrkir voru veittir í ár fyrir samtals 3,6 mkr. Gleðigjafar, Samkór Hornafjarðar, Kvennakór Hornafjarðar, Karlakórinn Jökull og Lúðrasveit Hornafjarðar hlutu hvert um sig rekstrarstyrki fyrir félagasamtökin. Leikfélag Hornafjarðar hlaut styrk fyrir leiksýninguna Hárið, Blús- og rokkklúbbur Hornafjarðar fyrir viðburði á hátíðinni í ár, Nemendafélag FAS fyrir árshátíð fyrir ungt fólk á svæðinu, Home Soil ehf. hlaut styrk fyrir kvikmyndina „Þriggja vetra“ og að lokum voru tvær bókaútgáfur styrktar, annarsvegar hjá Ungmennafélaginu Sindra, vegna skrifa á sögu Sindra, og hinsvegar Axel Bragi Andrésson sem er að leggja lokahönd á bókina Siglt til Grimsby.

IMG_7239Styrkþegar atvinnu- og menningamálanefndar

Fræðslu- og frístundanefnd veitir einnig árlega styrki til einstaklinga, félaga og samtaka er vinna að verkefnum sem falla undir fagsvið fræðslu- og frístundanefndar. Heildarfjárhæð styrkja sem nefndin veitir var að þessu sinni 850.000 kr. Sex aðilar sóttu um styrk að upphæð rúmra þrigga milljóna króna og var fimm aðilum úthlutað styrk. Styrkhafar að þessu sinni voru Alice Jadwiga Sowa fyrir verkefnið Öræfi Knitting Group sem ætlað er að halda prjónanámskeið og efla prjónaskap og samverustundir í Öræfum. Sóknarnefnd Hafnarsóknar til að efla barnastarf kirkjunnar. Hanna Dís Whitehead til að halda listnámskeið í Krakkaklúbbnum Kóbra. Foreldrafélögum Sjónarhóls og Grunnskóla Hornafjarðar til að halda sameiginlegt litahlaup í skólunum og 

IMG_7266Styrkþegar fræðslu- og frístundanefndar

Þá veitti Umhverfis- og skipulagsnefnd viðurkenningar til þeirra sem hafa með athöfnum sínum verið til fyrirmyndar og gert umgengni við náttúruna og umhverfið að eðlilegum þætti í hversdagslífi sínu eða hafa á annan hátt lagt sitt af mörkum til verndunar á náttúru og umhverfi. Í ár var Grunnskóla Hornafjarðar veitt viðurkenning fyrir öflugt og markvisst umhverfisstarf. Hótel Jökulsárlón á Reynivöllum hlaut einnig viðurkenningu fyrir glæsilegt hótel sem fellur vel að umhverfi sínu, snyrtilegan frágang og umhverfisvænar útfærslur. Að lokum hlutu Elísabet Jóhannesdóttir og Óðinn Eymundsson viðurkenningu fyrir sumarhús og lóð í Lóni þar sem þau hafa skapað fallegt umhverfi og sinnt af natni og alúð með virðingu fyrir umhverfinu. Einnig hafa þau stundað fjölbreytta ræktun og tilraunastarfsemi með sjálfsþurftabúskap.

IMG_7284Fulltrúar þeirra sem hlutu viðurkenningu umhverfis- og skipulagsnefndar

Menningarverðlaun Hornafjarðar

Að þessu sinni hlaut Guðbjartur Össurarson Menningarverðlaun Hornafjarðar en hann var tilnefndur af íbúum vegna skáldskapar síns. Hann hefur samið ýmiskonar ljóð og texta við sönglög og kemur einnig árlega fram á þorrablóti með annál ársins. Hann hefur ort gamanvísur um menn og málefni en landslag og náttúrufeurð hefur líka verið honum yrkisefni. Bæði Karlakórinn Jökull og Kvennakór Hornafjarðar hafa sungið lög sem samin hafa verið við ljóð eftir Guðbjart.

Aðrir sem tilnefndir voru í ár eru:

  • Örn Arnarson (Brói) fyrir söng sinn á ýmsum vettvangi í gegnum árin

  • Samkórinn fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins

  • Elísabet „Lísa“ Þorsteinsdóttir fyrir málverk sen sýna væntumþykju og virðingu fyrir umhverfinu

  • Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson fyrir frumkvæði í menningu

  • Ingibjörg á Hafnarbúðinni fyrir seiglu og æviframlag á sviði matarmenningar

  • Leikfélag Hornafjarðar fyrir Hornfirsku sýninguna Lísu í Undralandi 

IMG_7323Aðilar sem tilnefndir til menningaverðlaunana voru ásamt formanni atvinnu- og menningamálanefndar

IMG_0535

Sigurvegari menningarverðlauna 2025, Guðbjartur Össurarson ásamt eiginkonu sinni Agnesi og Sigrúnu Sigurgeirsdóttur formanni atvinnu- og menningarmálanefndar