Náttúruhamfarir í Sveitarfélaginu Hornafirði
Forsætisráðherra, samgönguráðherra, vegamálastjóri, fulltrúar Vegagerðarinnar, lögregla og viðbragðshópur fundaði með fulltrúum sveitarfélagsins í dag vegna náttúruhamfara í kjölfar mikilla rigninga undanfarna daga.
Farið var í vettvangsferð um hamfarasvæðið með þyrlu landhelgisgæslunnar og ljóst er að miklar skemmdir hafa orðið mannvirkjum. Í öryggisskyni var þjóðveginum lokað við Hoffellsá í austri að Hala í Suðursveit í vestri. Mestu áhrif vegna vatnavaxta eru við Hólmsá og Steinavötn. Rjúfa þurfti þjóðveg 1 á þremur stöðum á Mýrum til að verja veginn fyrir frekari skemmdum eftir að varnargarðar ofan Hellisholts brustu. Alls eru 17 bæir á svæðinu sem lokaðist af og eru íbúar þeirra 71 talsins. Þar að auki er rekin ferðaþjónusta á fjölmörgum bæjum og voru því allmargir innlyksa á svæðinu. Var þyrla Landhelgisgæslunnar notuð til að selflytja ferðamenn, alls 121 talsins, svo þeir gætu haldið áfram för sinni um landið.
Ljóst að brúin yfir Steinavötn er mikið skemmd og að byggja þarf nýja brú til að koma vegtengingu á aftur. Vegagerðin vinnur nú að byggingu bráðabirgðabrúar yfir Steinavötn og hafinn er flutningur á brúarefni inn á svæðið. Ef allt gengur af óskum verður hægt að hleypa umferð á hana eftir u.þ.b. sjö daga. Einnig er verið að leita allra leiða til að koma umferð aftur um svæðið eins fljótt og auðið er, m.a. með ferjun farþega yfir ófærur. Sökum mikilla skemmda og stöðugra vatnavaxta hefur ekki verið unnt að bjóða upp á slíkar lausnir enn sem komið er. Sem stendur vinna fjölmargir aðilar að viðgerðum varnargarðanna og það forsenda þess að hægt sé að lagfæra rof á þjóðveginum.
Nánari fregna er að vænta um leið og veðrið gengur niður, en samkvæmt núverandi veðurspá mun veðrið draga úr úrkomu annað kvöld.