Ný og glæsileg íbúðarbyggð
Unnið er að deiliskipulagsgerð og breytingu á aðalskipulagi vegna nýrrar íbúðabyggðar á reit sem kallast hefur ÍB5 á hér á Höfn í Hornafirði. Gert er ráð fyrir að fyrstu lóðir verði afhentar í árslok á þessu ári.
Íbúum hefur
fjölgað hratt
Í dag er skortur á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu,
ekki síst hér í þéttbýlinu á Höfn. Íbúum hefur fjölgað hratt undanfarin ár og til
þess að bregðast við þessari þróun vill bæjarstjórn undirbúa uppbyggingu á
íbúðarsvæði í norðurhluta bæjarins sem hefur auðkennið ÍB5 í aðalskipulagi. Frá
því að núgildandi aðalskipulag var mótað hafa ýmsar áherslur breyst. Því var
afmörkun fyrrgreinds íbúðasvæðis endurskoðað og þéttleiki aukinn. Svæðið sem um
ræðir er 9,5 hektarar og að þar verða byggðar á bilinu 175-200 íbúðir.
Áhersla á
góðar tengingar við þjónustustofnanir og skólasvæði
Svæðið sem um ræðir er óbyggt í dag. Vestan þess er
Hafnarbraut, sem er stofnbraut og aðal aðkomuleið inn í bæinn. Handan
Hafnarbrautar og nokkru vestar eru mikilvægar þjónustustofnanir eins og
heilsugæsla, leikskóli og kirkja, ásamt íbúðum fyrir aldraða. Góð tenging við
þessa þjónustu er því mikilvæg og unnið er að slíkri hönnun. Leið fyrir
skólabörn í skóla, íþróttir og sund verður um 0,8 til 1,2 kílómetrar, meðfram
Hafnarbraut, en án þess að fara þurfi yfir hana. Nýja íbúðarhverfið mun kalla á
stórbættar göngu- og hjóla tengingar meðfram Hafnarbraut austan megin.
Fjölbreyttar
íbúðir og tenging við náttúruna
Í deiliskipulagi verða götur og lóðir afmarkaðar og
tilgreint hvaða húsagerðir verða á hverri lóð, með áherslu á fjölbreytilegar
íbúðir og ferðamáta. Mikilvægt er að innan hverfisins verði skjólsælt og
gróðurríkt umhverfi með vistlegum dvalarrýmum. Áhersla verður m.a. lögð á gæði
byggðar, tengsl við nærliggjandi náttúru og stígakerfi og tengingar við skóla-,
íþrótta- og miðsvæði og umhverfi sem styður við virkan lífsstíl. Lagður verður
grunnur að hagkvæmri nýtingu lands í sátt við umhverfi og samfélag.
Hærri byggingar nærri Hafnarbraut
Svæðið verður deiliskipulagt í minnst tveimur áföngum mun fyrsti áfangi
leiða í ljós hvaða íbúðargerðir eru eftirsóttastar. Tvær götutengingar verða
við Hafnarbraut og ný miðlæg göngutenging fyrir miðju skipulagssvæðinu milli
Hafnarbrautar og náttúrustígsins okkar sem liggur meðfram ströndinni. Hærri
byggingar, 2-3 hæðir, mynda skjól gagnvart umferð næst Hafnarbraut. Minni
þéttleiki og uppbrotið byggðamynstur þróast í átt til austurs og opnar sig í
átt að grænum stíg, náttúru og útsýnis.
Fyrstu lóðum
úthlutað í lok árs
Sem stendur er unnið að því að undirbúa tillöguna til
kynningar og er gert ráð fyrir að skipulagstillögur verði kynntar fyrir íbúum
og hagsmunaaðilum í ágúst og september. Þá ætti að verða unnt að staðfesta
tillögurnar í nóvember. Þá tekur við hönnun gatna og lagna. Fyrstu lóðirnar
ættu því að vera tilbúnar til úthlutunar upp úr næstu áramótum.
Mikil uppbygging í Hornafirði
Það er virkilega spennandi tími framundan hjá okkur hér í Hornafirði og
mikil uppbygging í kortunum. Skinney-Þinganes hyggur á fjárfestingu í enn
öflugri uppsjávarvinnslu, nýtt og glæsilegt hótel er að rísa á Reynivöllum í
Suðursveit og bundnar eru vonir við kröftuga uppbyggingu á aðsetri og
höfuðstöðvum Vatnajökulsþjóðgarð í sveitarfélaginu. Þá er undirbúningur fyrir
framkvæmdir við Nýjan Miðbæ í fullum gangi. Mörg önnur verkefninu er einnig í
farvatninu hjá okkur en umræða um þau, bíður betri tíma.
Áfram
Hornafjörður!
Sigurjón
Andrésson bæjarstjóri