Nýtt húsnæðisbótakerfi – Ítrekun
Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá mörgum að eitt af helstu verkefnum fráfarandi ríkisstjórnar var að gera umbætur á húsaleigubótakerfinu.
Nú um áramótin verður breyting á umsóknarferli og afgreiðslu húsaleigubóta en öll umsýsla almennra húsaleigubóta færist til Vinnumálastofnunar sem er að opna sérstaka Greiðslustofu húsaleigubóta sem staðsett er á Sauðárkróki. Þessar breytingar munu hafa þau áhrif að allir þeir sem eru með húsaleigubætur í dag þurfa að sækja um að nýju til Greiðslustofu húsaleigubóta fyrir árið 2017.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir og eru allir þeir sem þiggja húsaleigubætur í dag hvattir til að kanna stöðu sína og sækja um húsaleigubætur fyrir árið 2017 til Greiðslustofu. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið má finna á heimasíðu Greiðslustofu húsnæðisbóta husbot.is
Umsækjendur húsnæðisstuðnings bera sjálfir ábyrgð á því að sækja um sínar húsaleigubætur og geta nálgast húsaleigusamninga sína á bæjarskrifstofur. Sé ekki sótt um tímanlega til Greiðslustofu getur fólk misst af greiðslum enda hættir sveitarfélagið alfarið að greiða út almennar húsaleigubætur um áramótin. Hægt er að nálgast húsaleigusamninga vegna eldri umsókna í Ráðhúsinu.
Sveitarfélagið mun áfram sjá um afgreiðslu og framkvæmd vegna húsnæðisstuðnings til foreldra framhaldsskólanema á aldrinum 15-17 ára sem og sérstakra húsaleigubóta. Sveitarfélagið mun setja sér reglur vegna sérstakra húsaleigubóta og nemabóta sem verða kynntar síðar.