Nýtt íþróttahús á Höfn
Staða verkefnisins – kostir og gallar á mismunandi staðsetningu
Stýrihópur um byggingu nýs íþróttahúss á Höfn hefur verið að störfum hjá okkur síðustu misseri. Í stýrihópnum eiga sæti þrír fulltrúar, einn frá hverju framboði þeirra flokka sem eiga sæti í bæjarstjórn.
Eitt af fyrstu verkum hópsins var að heimsækja nokkur íþróttahús á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu og var ferðin farinn ásamt undirrituðum og hópi starfsfólks sveitarfélagsins. Í kjölfarið lagði hópurinn mikla vinnu í að afla gagna frá hagsmunaaðilum og fagfólki. Unnið var að ýmsum ólíkum útfærslum hússins og voru tvær staðsetningar til umræðu og skoðunar. Annars vegar að reisa húsið á núverandi æfingavelli, svokölluðum malarvelli, við Jökulfellsvöll og hins vegar að reisa húsið sem viðbyggingu við núverandi íþróttahús í suðvestur.
Tillaga A miðast við stakstætt hús á malarvellinum og tillaga C er viðbygging við núverandi íþróttahús sjá skýringamynd:
Tillaga A valin af meirihluta stýrihóps
Eftir að hafa skoðað málið frá öllum hliðum var það niðurstaða meirihluta stýrihópsins að skoða áfram þá staðsetningu sem er í núverandi skipulagi og er tillaga A. Að stefna að því að reisa nýtt íþróttahús á malarvellinum við fótboltavöllinn. Það er talin vera sú staðsetning sem þjónar best heildarhagsmunum samfélagsins til lengri tíma litið.
Kostnaðaráætlun breytti okkar áætlununum
Frumhönnun var gerð á þremur valkostum og var sú hönnun unnin af rágjöfum sem unnu með stýrihópnum. Í kjölfarið var kostnaðaráætlun gerð og í henni var kostnaðurinn metin um og yfir fjóra milljarða. Uppgefin óvissa í þeim áætlunum er 50% skv. fyrirliggjandi gögnum. Á þeim tímapunkti var staldrað við, enda er í mínum huga óraunhæft fyrir bæjarsjóð að ráðast í og réttlæta slíka fjárfestingu í nýtt íþróttahús!
Mannvirkjaviði sveitarfélagsins falið að finna ódýrari leiðir
Það kostnaðarmat sem stýrihópurinn fékk í hendurnar og er rúmir fjórir milljarðar gengur ekki upp fyrir okkar hér í Hornafirði. Og þegar þessar upplýsingar lágu fyrir fórum við á stúfana til að skoða með hvaða hætti mætti draga úr þessum kostnaði. Í langtímafjárhagsáætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir fjárfestingu fyrir um tvo milljarða í verkefnið og þá er markmiðið að reisa nýtt íþróttahús ásamt því að leggja nýtt gervigras á fótboltavöllinn. Þetta er fjárfesting sem bæjarsjóður getur að óbreyttu ráðið við án þess að skuldahlutfall sveitarfélagsins hækki óásættanlega.
Önnur sveitarfélög eru að gera þetta fyrir lægri kostnað
Við höfum á síðustu vikum meðal annars átt fundi og fengið gögn frá litlu sveitarfélagi á Suðurlandi þar sem verið er að byggja íþróttahús að svipaðri stærð en áætlanir þeirra ganga út á kostnað sem er um 800 m.kr. Hér þarf sveitarfélagið að sníða sér stakk eftir vexti og hefur mannvirkjasvið unnið hörðum höndum að því að kostnaðarmeta hlutina upp á nýtt og leita leiða við að ná niður þessum kostnaði.
Gangur byggingaframkvæmda með tilliti til kostnaðar, gæða og framkvæmdaáætlana almennt ræðst að verulegu leiti af því á hvaða formi verkum er stjórnað – strax á undirbúningsstigi og í gegnum allt ferlið. Kostnaður framkvæmda er alltaf í öllum meginþáttum skilgreindur í hönnunarferlinu, og því er mikilvægt að stjórnun hönnunar og framkvæmda sé skilvirk og þjóni markmiðum sveitarfélagsins og getu til fjárfestingar. Leitast verður við að stytta boðleiðir til þeirra sem bera ábyrgðina, og skerpa á stjórnun verkefnisins á ýmsum fyrirhuguðum stigum þess, í viðleitni til þess að koma í veg fyrir óvissu og tryggja að við Hornfirðingar fáum gott íþróttahús og góðan knattspyrnuvöll, í fullum gæðum, á sanngjörnu verði sem við ráðum við.
Kostir og gallar varðandi staðsetningar
Það eru skiptar skoðanir á staðsetningunni. Staðsetning C, þar sem byggt er við núverandi íþróttahús gefur okkur tækifæri á að byggja alrými, sem gæti verið spennandi kostur þar sem inngangur í sundlaugina, Heppuskóla og íþróttahúsið er sá sami - að vísu ber að nefna að þetta rými væri þá við skuggahlið íþróttahússins (á Norðurhlið). Þá er ljóst að til að byrja með í það minnsta, er rekstrarkostnaður við stakstætt hús mögulega meiri en að hafa húsið sambyggt núverandi húsi.
Miðsvæðið eftir 25 ár og öryggi á framkvæmdartíma
Það eru ekki við, heldur barnabörnin okkar sem munu stunda íþróttir í nýju húsi og á miðsvæðinu árið 2050. Okkur ber þannig skylda til að hugsa með okkur hvernig þetta svæði mun líta út eftir 25 ár og hverjar þarfir samfélagsins verða þá. Tillaga C gefur okkur mun færri möguleika til vaxtar. Ég minni á að skv. húsnæðisáætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að íbúum í þéttbýlinu hér á Höfn hafi fjölgað um 500 eftir 10 ár og er þetta miðspá.
Öryggismál á framkvæmdatíma eru líka stór og oft vanmetin þáttur. Ef farið væri eftir tillögu C og byggt yrði við gamla íþróttahúsið væri um að ræða afar stóra framkvæmd í miklu návígi við rekstur skólanna og umferð barna um svæðið. Allt aðgengi á framkvæmdatíma er ólíkt erfiðara í tillögu C en tillögu A. Það er í raun algjör eðlismunur á framkvæmdunum sem um ræðir annars vegar í tillögu C og hinsvegar í tillögu A.
Aðrir þættir sem mæla með tillögu A í stað tillögu C eru meðal annars:
- Aðgengi: Í tillögu C er mun verra aðgengi fyrir hvers kyns aðföng, sjúkrabíl og þjónustu samanborið við tillögu A og á þetta við bæði á framkvæmdatíma hússins og þegar kemur að rekstri þess.
- Skuggavarp á sundlaugina: Með því að reisa nýtt íþróttahús sambyggt núverandi húsi verður til skuggavarp á sundlaugarsvæðið og lokun útsýnis þaðan í sólarátt. Þetta er mikilvægt atriði ekki síst í tengslum við núverandi umræðu um „grænan vegg“ í Reykjavík.
- Þrengsli: Í tillögu C er svæðið sem stendur til afnota undir nýtt íþróttahús mjög takmarkað og líka þrengt mjög að leiksvæði barnanna okkar.
- Færsla á buslulaug og fótboltavelli: Skv. tillögu C þarf að breyta miklu á sundlaugarsvæði með tilheyrandi raski, lokunum og kostnaði. Þá þarf að færa íþróttavöll og hlaupabraut nær Bárunni og einnig færa buslulaugina í sundlauginni.
- Stúkan við fótboltavöllinn og tenging við fótboltann: Með því að fara leið C yrði stúka við fótboltavöllinn stakstæð á gamla malarvellinum og nýja íþróttahúsið alls ekki jafn tengt fótboltanum. Það verður til að mynda mun lengra í búningsklefa og mikilvæg tenging við Báruna tapast ásamt verðmætu skjóli sem húsið hefði fyrir fótboltavöllinn með leið A.
Það má þess vegna segja að með tillögu C sé þróun miðsvæðisins orðin mjög takmörkunum háð, vegna þrengsla, skuggavarps og ófullnægjandi aðgengis, borið saman við tillögu A.
Horfum á þetta heildstætt og lítum til lengri tíma
Það er ljóst að á einhverjum tímapunkti þarf að byggja við Heppuskóla og koma grunnskólanum undir eitt þak. Ég óskaði eftir því að mannvirkjasvið hefði í allri sinni vinnu í huga framtíðaruppbyggingu grunnskólans og miðsvæðisins sem verðmætrar heildar fyrir samfélagið.
Tillaga C fullnýtir núverandi svæði á milli skóla og sundlaugar og gefur mjög takmarkaða möguleika til þróunar eftir 20 ár. Hún endurspeglar í raun skammtímahugsun. Við verðum að ímynda okkur hvernig samfélagið verður árið 2050, því íþróttahús er í raun byrjun á þróun á þessu svæði til næstu 50-100 ára. Það má ekki gleyma því að tillaga C takmarkar líka mjög þróun á miðsvæðinu sem hátíðarsvæði okkar Hornfirðinga, bæði þar sem nýtt íþróttahús þrengir að, en líka þar sem leggja þarf nýjan veg fyrir aðföng að húsinu að suðaustan.
Tillögur kynntar innan skamms
Innan skamms mun mannvirkjasvið kynna sínar tillögur um uppbyggingu nýs íþróttahúss á malarvellinum fyrir stýrihópnum og í framhaldi af því eiga samtal við alla hagsmunaaðila. Þar verður einnig kynnt kostnaðaráætlun og hvernig við sjáum miðsvæðið og framtíðaruppbyggingu skóla- og íþróttastarfs á svæðinu þróast m.t.t mannvirkja og skipulags.
Mikilvægt að ná sátt
Ég vil trúa því að við getum náð víðtækri sátt um verkefnið og mín sannfæring er sú að tillaga A gefi okkur miklu fleiri tækifæri til vaxtar og þróunar til lengri tíma litið, meiri sveigjanleika og möguleika til að þróa svæðið sem skóla og íþróttasvæði, sem yrði mikilvægur þáttur í því að gera svæðið í heild að enn betri samfélagsmiðstöð í hjarta bæjarins.
Áfram Hornafjörður!
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri