Nýtt klippikort á endurvinnslusvæði
Nýtt klippikort verður tekið í notkun á endurvinnslusvæði sveitarfélagsins.
Frá og með 1. október þurfa íbúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar klippikort til að komast inn á endurvinnslusvæðið á Höfn.
Klippikortin er hægt að nálgast í afgreiðslu Ráðhúss, ekki er hægt að senda þau heim þar sem einungis fasteignaeigendur íbúða/húsa sem greiða sorphirðugjöld fá afhent kort. Leigjendur verða að fá kortin afhent af leigusala sínum.
Tekið verður á móti ógjaldskyldum úrgangi án greiðslu en klippt verður fyrir gjaldskyldan úrgang. Hvert klipp gildir fyrir 0,25 m3 sem samsvarar 240 l. heimilistunnu. Á hverju korti eru 16 klipp sem duga samtals fyrir 4 m3. Að öllu jöfnu á kortið að gilda út árið. Klárist kort þá verður hægt að kaupa aukakort í afgreiðslu Ráðhúss. Hvert aukakort kostar 8.000 kr.
Verndum umhverfið spörum peninga
Það borgar sig að flokka þann úrgang sem til fellur og skila á réttan stað. Með því verndum við umhverfið og stöndum að málum á sem hagkvæmastan hátt.
Megnið af því sem skilað er inn á endurvinnslusvæðið er endurnýtt með einum eða öðrum hætti og breytist því úr úrgangi í verðmæti. Fyrir skil á slíkum úrgangi þarf ekki að greiða. En sumt þarfnast kostnaðarsamrar meðhöndlunar og í þeim tilfellum þarf að borga.
Áríðandi er að skoða vel hvaða flokkar eru gjaldskildir, ef sorpið er vel flokkað á kortið að endast lengur. Með því erum við að vernda umhverfið og standa að málum á hagkvæman hátt. Markmiðið er að láta sem mest fara í endurvinnslu og eins lítið og mögulegt er til urðunar.