• Happy-7-

Opinbert samráð um drög að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Hornafirði 2025-2036

17.2.2025

Sveitarfélagið býður íbúa, fyrirtæki og hagsmunaaðila til að taka þátt í samráði!

Drög að Svæðisáætlunum meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Hornafirði 2025-2036 eru nú til umsagnar og við leitum eftir hugmyndum og ábendingum um hvernig áætlunin getur orðið betri, sérstaklega í eftirfarandi atriðum:

  • Hvernig getum við dregið úr myndun úrgangs frá upphafi?
  • Hvernig getum við bætt flokkun og endurvinnslu?
  • Hvað getum við gert til að lágmarka úrgang sem fer í urðun?

Um svæðisáætlunina

Þessi áætlun er lögbundin samkvæmt 6. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og felur í sér 12 ára stefnu sveitarfélagsins í úrgangsmálum.

  • Stuðla að úrgangsforvörnum og hringrásarhagkerfi með því að draga úr úrgangsmyndun, auka endurvinnslu og endurnýtingu og lágmarka urðun.
  • Beina úrgangi sem ekki er endurvinnanlegur í orkuvinnslu, með það markmið að frá árinu 2028 verði urðunarstaðurinn í Lóni aðeins fyrir steinefnaríkan úrgang og undantekningartilvik.
  • Lágmarka úrgang frá rekstri sveitarfélagsins og vera til fyrirmyndar.
  • Tryggja að sá sem mengar borgi, þannig að kostnaður við úrgangsmál falli á framleiðendur úrgangs.
  • Betri nýting lífræns úrgangs til að koma í veg fyrir óþarfa förgun.

Landsmarkmið og markmið sveitarfélagsins

Áætlunin fylgir landsmarkmiðum um úrgangsmál:
Endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs:
55% árið 2025 | 60% árið 2030 | 65% árið 2035
Núverandi hlutfall: 45%

Hlutfall heimilisúrgangs sem fer í urðun:
Hámark 10% árið 2035
Núverandi hlutfall: 54%

Helstu aðgerðir í áætluninni

Áætlunin skilgreinir 16 lykilaðgerðir (chp3) sem eiga að hjálpa við að ná þessum markmiðum, þar á meðal:

  • Uppbygging innviða til úrgangsforvarna
  • Söfnun og endurvinnsla garðaúrgangs
  • Fjölgun grenndarstöðva
  • Bætt flokkun heimilisúrgangs frá fyrirtækjum
  • Endurbætur á móttökustöð
  • Fræðsla og samskipti

Hvað þarf frekari umfjöllun?

Ef öllum aðgerðum verður hrint í framkvæmd er búist við að endurvinnsluhlutfall hækki úr 45% í 57%. Þetta þýðir að við getum náð 55% markmiðinu fyrir 2025, en aðgerðirnar duga líklega ekki til að ná 60% markmiðinu fyrir 2030.

Því viljum við heyra frá ykkur!

  • Hvernig getum við lokað þessu bili?
  • Hvaða viðbótaraðgerðir ætti að íhuga?

Hægt er að skoða drögin í heild sinni og leggja fram ábendingar og athugasemdir.

Tökum höndum saman og byggjum sjálfbærara úrgangsstjórnunarkerfi í Hornafirði!

Endurgjöf og athugasemdir má senda á xiaoling@hornarfjordur.is