Páskapistill bæjarstjóra

9.4.2020

Við fögnum nú Páskum á öðruvísi hátt en við erum vön þetta árið. Covid-19 heimsfaraldurinn setur mark sitt á hátíðarhöldin.

Það er áskorun að takast á við breytta tíma en margt skemmtilegt kemur út úr því. Við sjáum fólk taka upp á alls konar hlutum á samfélagsmiðlum sem gleðja okkur og aðra. Við erum dugleg að finna leiðir til að lifa með höftunum sem fylgja samkomubanni. Ég hef verið í tveimur vinahittingum á Zoom forritinu í vikunni og forritið býður upp á þann möguleika að halda fjölskyldumatarboð í gegnu netið! Það er um að gera að virkja ímyndunaraflið og finna leiðir til að gera lífið skemmtilegra um þessar mundir.

Við hér á Hornafirði erum heppin enn sem komið er, smitin eru einungis 8 í heildina og hefur þeim ekki fjölgað í 2 vikur. Það eru tekin 1-6 sýni daglega á heilsugæslunni en ekkert þeirra hefur greinst jákvætt ennþá síðustu tvær vikur. Það kom upp grunur um smit á hjúkrunardeildinni fyrir stuttu, það reyndist sem betur fer dýrmæt æfing þar sem sýnið reyndist neikvætt. Við þessar aðstæður kom í ljós að starfsemin getur lamast hratt við slíkar aðstæður líkt og dæmin sanna vestur í Bolungarvík. Smitin geta breiðst hratt út í smáum samfélögum og við skulum reyna okkar besta til að koma í veg fyrir að slík hópsýking komi upp hér. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að geta hringt inn auka mannskap til að standa vaktina við að annast þjónustuþega velferðarþjónustunnar. Ég bið því íbúa til að skrá sig í Bakvarðasveit velferðarþjónustu sem telja sig geta aðstoðað komi upp aðstæður sem lama starfsemi hjúkrunar- eða félagsþjónustu. 

Áhrifa Covid-19 á ferðaþjónustu eru gríðarleg. Ferðaþjónustan er nú stærsta atvinnugreinin hér á Hornafirði ásamt sjávarútvegi. Mörg fyrirtæki hafa sprottið upp á síðustu árum þar sem starfsemin treystir á komu ferðamanna. Ég hef rætt við nokkra aðila í ferðaþjónustunni og atvinnu- og ferðamálafulltrúi sveitarfélagsins einnig. Aðstæður eru strax erfiðar fyrir þessi fyrirtæki og framtíðin óviss. Faraldurinn breiðist nú út um allan heim sem hefur áhrif á efnahag og þar með ferðalög manna. Ég hvet fyrirtæki til að nýta sér þau úrræði sem ríkisstjórn og sveitarfélagið hefur kynnt. Sveitarfélagið er vakandi fyrir þróun mála og endurskoðar sínar aðgerðir í takt við það. Hafi íbúar ábendingar varðandi mögulegar aðgerðir eða framkvæmdir þá eru starfsmenn sveitarfélagsins opnir fyrir öllum hugmyndum. Það eru einnig breyttar forsendur hjá sveitarfélaginu og því þarf að endurskoða fjárhagsáætlun. Framkvæmdaáætlunin sem var samþykkt við fjárhagsáætlunargerðina fyrir árið 2020 stendur óbreytt en á áætlun eru framkvæmdir fyrir tæplega 800 m.kr. Einnig er verið að huga að fjölbreyttari verkefnum fyrir vinnuskólann þar sem við reiknum með aukinni aðsókn. 

Ég vil ljúka þessum pistli á að hvetja fólk til að ferðast innanhús eða í nærumhverfinu um Páskana, við erum heppin að geta notið útivistar í víðerni næsta nágrennis með því að virða 2 metra fjarlægðarmörk. Njótum þess sem náttúran hefur að bjóða, nýtum okkur fundarforrit og samfélagsmiðla til að tengjast vinum og ættingjum og verum dugleg að senda jákvæð skilaboð út í samfélagið. 

Gleðilega Páska!

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.