Samgangur barna eftir skólatíma vegna Covid 19 faraldurs27. mars 2020

Um samgang barna eftir skólatíma meðan á samkomubanni stendur vegna Covid 19 faraldurs.

Margir foreldrar velta fyrir sér hvernig best sé að halda utan um það við hvern börn þeirra leika að skólatíma loknum. Í Grunn- og leikskólum sveitarfélagsins er búið að skipta börnunum upp í hópa til að koma í veg fyrir krosssmit. Verði einhver veikur af Covid-19 þarf ekki að fella niður allt skólastarf heldur aðeins hjá þeim hópi sem upp kemur smit í.

Samtökin Heimili og skóli hafa fengið þessa fyrirspurn, leitaði eftir upplýsingum hjá sóttvarnarlækni og fengið eftirfarandi leiðbeiningar:

Foreldrar eru hvattir til þess að takmarka samgang allra í fjölskyldunni við aðra utan fjölskyldunnar sem mest og hafa í huga að halda ákveðinni fjarlægð á milli einstaklinga ásamt hreinlætisaðgerðum. Þetta gildir hvort sem um er að ræða vini eða ættingja.

Foreldrar bera að sjálfsögðu ábyrgð á því hvernig þeir útfæra þessar grunnreglur um samskipti en í raun þýðir þetta að ekki er hvatt til þess að börn séu að hittast til að leika eða læra saman að óþörfu.