Samstarf um gönguleiðir í Sveitarfélaginu Hornafirði
Þann 24. maí sl. gerðu Sveitarfélagið Hornafjörður og fyrirtækið Wapp-Walking app með sér samstarfssamning um birtingu valinna gönguleiða í smáforritinu „Wapp“ sem er aðgengilegt án kostnaðar bæði fyrir Android og Iphone.
Markmiðið er að efla lýðheilsu og kynna Sveitarfélagið Hornafjörð sem kjörsvæði fyrir lengri og styttri göngur, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Verða leiðarlýsingarnar aðgengilegar fyrir íbúa og gesti í gegnum Wappið og eru þær í boði sveitarfélagsins í tvö ár frá birtingu þeirra. Er nú unnið að gagnaöflun fyrir gönguleiðirnar sem um ræðir, en sveitarfélagið leggur til texta, gps gögn og myndefni vegna þeirra. Lögð verður áhersla á að kynna sögu, menningu, náttúru og sérstöðu svæðisins í gegnum leiðsögnina, sem verður í boði bæði á íslensku og ensku.
Árdís Erna Halldórsdóttir og Einar Skúlason við undirritun samningsins
Er það von okkar að það bætist jafnt og þétt í gagnagrunninn enda eigum við fjölmargar góðar gönguleiðir í sveitarfélaginu okkar. Áhugasamir einstaklingar, fyrirtæki eða stofnanir eru hvött til að hafa samband við Árdísi Ernu atvinnu- og ferðamálafulltrúa ef áhugi er á að leggja til gögn í gönguleið til birtingar. Einnig er hægt að bjóða notendum upp á gönguleið í ákveðinn tíma gegn kynningu, en að jafnaði kostar hver gönguleið um kr. 1-200 fyrir notandann.
Hægt er að hafa samband í netfangið ardis@hornafjordur.is, í síma 470-8000 eða koma við í ráðhúsinu.