Sex Hornfirsk fyrirtæki hljóta viðurkenningu Vakans
Fimmtudaginn 8. desember síðastliðinn hlutu 6 Hornfirsk fyrirtæki viðurkenningu Vakans frá Ferðamálastofu.
Vakinn er sérhannað gæðakerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu, en byggir á erlendri fyrirmynd. Þau fyrirtæki sem taka þátt njóta liðsinnis starfsfólks Vakans við að taka út reksturinn á grundvelli ítarlegra gæðaviðmiða, fá staðfestingu á því sem vel er gert og tækifæri til að bæta það sem betur má fara. Við val á ferðaþjónustufyrirtæki skiptir það miklu máli að það hafi viðurkennda gæðavottun að því er kemur fram í könnun sem gerð var 2015 meðal ferðamanna sem heimsækja Ísland.
Nú hafa sex fyrirmyndarfyrirtæki í afþreyingarferðaþjónustu í Ríki Vatnajökuls nú farið í gegnum og staðist gæðaúttekt Vakans. Öll þessi fyrirtæki eru í eigu heimamanna sem leggja metnað sinn í að veita ferðamönnum góða þjónustu. Þetta eru fyrirtækin:
- Öræfaferðir/From
Coast To Mountain í eigu Matthildar Þorsteinsdóttur og Einars Rúnars
Sigurðssonar. Þau bjóða m.a. upp á ferðir í Ingólfshöfða, á Hvannadalshnjúk og
íshellaferðir.
- Local
Guide í eigu Helenar Maríu Björnsdóttur
og Arons Franklíns Jónssonar. Þau bjóða upp á íshellaferðir, jöklagöngur og
ferðir í Ingólfshöfða.
- Glacier
Adventure í eigu Beglindar Steinþórsdóttur, Hauks Inga Einarssonar, Þóreyjar
Gísladóttur og Vésteins Fjölnissonar. Þau bjóða upp á íshellaferðir,
jöklagöngur, ísklifur, og sérsniðnar ferðir.
- South
East Iceland í eigu Önnu Maríu
Kristjánsdóttur og Sigurðar Guðmundssonar. Þau bjóða m.a. upp á jeppaferðir
bæði staðlaðar og sérsniðnar, auk íshellaferða.
- Glacier
Trips í eigu Sindra Ragnarssonar, Fanneyjar Bjargar Sveinsdóttur, Steinars Kristjánssonar og Erlu Þórhallsdóttur.
Þau bjóða m.a. upp á íshellaferðir, jöklagöngur og norðurljósaferðir.
- Fallastakkur/Glacier Journey í eigu Laufeyjar Guðmundsdóttur og Guðlaugs Jakobs Þorsteinssonar. Þau bjóða m.a. upp á sleðaferðir á jökul, jeppaferðir og íshellferðir. Glacier Journey hlaut einnig bronsmerki í umhverfishluta Vakans. Umhverfisviðmiðunum er ætlað að meta árangur fyrirtækja á sviði umhverfismála, samfélagslegrar ábyrgðar og tengsla við nærsamfélagið.
Sum þessara fyrirtækja hófu umsóknarferlið að Vakanum sl. vor í kjölfar fjarnámskeiðs sem Vakinn hélt í samstarfi við Ríki Vatnajökuls. Fyrirtækin hafa því unnið hratt og vel, vegna þess að oft tekur umsóknarferlið eitt ár. Það er fáheyrt að þetta mörg fyrirtæki á svo fámennu svæði hljóti viðurkenningu Vakans á sama tíma.
Fyrir eru í Vakanum veitingastaðurinn Humarhöfnin og Brunnhóll ferðaþjónusta bænda. Einnig má geta þess að 10 Hornfirsk fyrirtæki eru í umsóknarferli.
Það er því mikill kraftur í heimamönnum og metnaður til að standa sig sem best í þjónustu við þá ferðamenn sem sækja okkur heim. Við getum verið stolt af þessum fyrirtækjum, slíkt frumkvæði og metnaður fyrirtækjanna gefur vonir um bjarta framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Ríki Vatnajökuls óskar þessum fyrirtækjum innilega til hamingju með árangurinn.