Sex smit í sveitarfélaginu
Fjöldi smita í Sveitarfélaginu Hornafirði eru nú sex, þar af eru tvö landamærasmit. Nú hefur allt starfsfólk Grunnskóla Hornafjarðar og nemendur sem þurftu að fara í sjö daga sóttkví lokið skimun og komu allir vel út, þ.e. engin jákvæð smit.
Grunnskólastarf er nú komið í eðlilegt horf og kennsla hafin á ný. Enn þurfa starfsmenn og nemendur sem eru að koma úr sóttkví að viðhafa sérstaka smitgát.
Smitgátin er skilgreind þannig að fólki er ráðlagt frá mannamótum eða veislum þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir, forðast samneyti við áhættuhópa, gæta að tveggja metra reglunni og huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum.
Viðkomandi má fara í bíltúra, búðarferðir og hitta vini og kunningja með ofangreindum takmörkunum. Enn eru 5 einstaklingar í sóttkví í sveitarfélaginu en það tengist ekki smitum í grunnskólanum. Það er ánægjulegt að engin fleiri smit hafa greinst sem stendur en það eru smit víða í samfélaginu um allt land og því er mikilvægt að fara varlega á ferðalögum um landið.