Skýrsla bæjarstjóra - að lokum!

20.5.2022

Skýrsla bæjarstjóri er að þessu sinni með breyttu sniði. Ég vil nota tækifærið til að fara yfir það helsta sem stendur upp úr á síðustu fjórum árum sem ég hef gegnt starfi bæjarstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Ég hóf störf í september 2018 og gegndi til að byrja með samhliða starfi framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunarinnar. Ég fór því ansi bratt af stað og vinnustundirnar voru ansi margar. Starf bæjarstjóra er ólíkt öllum öðrum störfum, bæjarstjóri er yfirmaður á stórum vinnustað ásamt því að vera talsmaður meirihlutans sem hann starfar fyrir og tengill íbúanna við stjórnsýsluna. Bæjarstjóri þarf að vera vel að sér í mörgum málum en hefur sem betur fer frábært starfsfólk sem vinnur að framgangi mála sem bæjarstjórn hefur sett í málefnasamning eða stefnuskrá. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið vel rekið sveitarfélag í gegnum tíðina og það eru forréttindi að fá að taka við slíku búi. Sú ábyrga stjórnun hefur haldist en stundum er tekist á því bæjarfulltrúar hafa það að markmiði að starfa fyrir íbúana sem gera ákveðnar kröfur til þeirra um uppbyggingu, fjárfestingu og margt fleira. Því er eðlilegt að gera þurfi málamiðlanir á milli bæði meirihluta og minnihluta og einnig við íbúa. Bæjarstjórn á að vinna fyrir alla íbúa og fylgja lögum og reglum sem gildir um rekstur sveitarfélaga.

Heimsfaraldur
Fjögur ár eru fljót að líða en þegar ég horfi tilbaka eru þessi fjögur ár samt sem 10 ár í minningunni því árin voru svo viðburðarík. Hver átti til dæmis von á því að heimsfaldur myndi á okkur dynja. Auðvitað hafði Covid gríðarleg áhrif á starfsemi sveitarfélaga, áform bæjarstjórnar um að fylgja eftir kosningaloforðum o.s.frv. Bregðast þurfti við aðstæðum, tekjuminnkun fyrir sveitarfélagið, atvinnuleysi sem aldrei hefur áður sést hvorki í sveitarfélaginu eða á landinu öllu. Atvinnulífið titraði að sjálfsögðu enda gríðarlega miklir hagsmunir undir. Við stjórnendur sátum ótal fundi til að skipuleggja starfsemi á tímum samkomutakmarkana í þökk og óþökk íbúanna. Fundir nefnda fóru fram á netinu að miklu leiti á þessum tíma, starfsfólk mátti ekki koma inn á aðrar stofnanir, ráðstefnur og íbúafundir færðust á netið. Aðstæður sem þessar voru sem betur fer án fordæma og því þurfti að læra margt nýtt. Við sem samfélag sluppum ótrúlega vel út úr heimsfaraldrinum bæði hvað varðar smittölur og hvað varðar rekstur sveitarfélagsins. Þessi reynsla sýnir fram á mikilvægi þess að hafa fjölbreytt atvinnulíf í sveitarfélaginu og ábyrgan rekstur.

Heilbrigðisþjónusta – öldrunarþjónusta
Ein af áskorunum á þessum fjórum árum var flutningur á rekstri heilsugæslunnar, sjúkrarýma og sjúkraflutninga til HSU og einnig flutningur á rekstri hjúkrunarheimilisins til Vigdísarholts. Rekstur þjónustunnar þyngdist verulega fyrstu tvö ár kjörtímabilsins með tilheyrandi hallarekstri. Það gekk illa að eiga í samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands en við nutum góðs af því að vera samstíga með Akureyrarbæ, Vestmannaeyjarbæ og Fjarðarbyggð í ferlinu. Við upplifðum ótrúleg samskipti og lítinn vilja til samninga. Málið stóð mér persónulega nærri þar sem ég var framkvæmdastjóri yfir heilbrigðisþjónustunni á árunum 2012-2018 en reksturinn hafði verið í höndum sveitarfélagsins allt frá árinu 1996 og staðið að verkefninu með miklum sóma allan þann tíma. Ég tel að málið hafi endað á farsælan hátt þó sumir hefðu viljað halda rekstrinum áfram hjá sveitarfélaginu.

Hjúkrunarheimili – stækkun
Bygging hjúkrunarheimilis hefur verið mitt hjartans mál. Við skrifuðum undir samninga um bygginguna í maí 2018. Haustið 2018 hófst formlegur undirbúningur sem var stýrt af Framkvæmdasýslu ríkisins. Tekin var ákvörðun um að halda hugmyndasamkeppni líkt og hafði verið gert víða annars staðar s.s. í Árborg. Það voru svo Basalt arkitektastofa og Efla verkfræðistofa sem höfnuðu í efsta sæti með heimili sem var valið með notagildi, útlit og hagkvæmni í rekstri að leiðarljósi. Í kjölfar þess hófst hönnunarferli þar sem rekstraraðilar Skjólgarðs og sveitarfélagið unnu saman með arkitektum og starfsmönnum framkvæmdasýslunnar. Hönnun dróst á langinn og hafði covid þar áhrif, skipti á verkefnastjórum o.fl. Útboðsgögn voru tilbúin s.l. vor og framkvæmdin boðin út. Á sama tíma gætti mikill áhrifa verðhækkana vegna covid og kostnaðaráætlunin var í stöðugri endurskoðun. Tilboðin sem bárust þóttu of há en ég vil ítreka það hér að öll bæjarstjórn samþykkti kauptilboðið og hefur verið mikill einhugur um þetta mál hjá öllum bæjarfulltrúum, en Heilbrigðisráðuneytið tók ákvörðun um að hafna tilboðinu. Í kjölfarið hófst vinna við að ná kostnaði niður í samstarfi við hönnuði, kostnaðaráætlun uppfærð og óskað eftir heimildum heilbrigðis- og fjármálaráðuneytis á fjármögnun miðað hækkun á kostnaðaráætlun. Á mánudaginn síðastliðinn var óskað eftir nýju tilboði frá verktaka, ég hef ekki fengið upplýsingar um hvort það hafi borist. Ég vona svo innilega að málinu ljúki á næstu vikum svo hægt verði að taka skóflustungu að nýju heimili fyrir lok þessa mánaðar!

Mig langar að koma því á framfæri að mér hefur oft á tíðum þótt umræðan í tengslum við þetta mál vera ósanngjörn. Allir bæjarfulltrúar og bæjarstjóri hafa beitt sér að fremsta megni í þessu máli. Á tímabilinu lentum við í heimsfaraldri og nú síðast braust út stríð. Aðstæður hafa verið án fordæma! Baráttuleiðir íbúa, aðstandenda og starfsmanna á Skjólgarði hafa verið á jákvæðum nótum og til fyrirmyndar, þakka ég þeim fyrir þeirra framlag á erfiðum tímum.

Velferðarþjónusta í Miðgarði
Ég er afar stolt af þeim árangri sem hefur náðst í velferðarmálum. Í upphafi kjörtímabils var áherslan á aukna heilsueflingu og heimaþjónustu ásamt því að byggja upp aðstöðu fyrir fatlað fólk og styrkja atvinnumál fatlaðs fólks og fólk með skerta starfsgetu. Í dag er öll velferðarþjónusta sveitarfélagsins staðsett í Miðgarði að Víkurbraut 24. Verkefnið þjónustan heim var innleidd þar sem markmiðið var að samþætta alla þjónustu sem er veitt í heimahús. Heimaþjónusta sveitarfélagsins er nú í boði frá morgni til kvölds alla daga ársins. Heilsuefling eldri borgara sem hefur lengi verið mitt gæluverkefni komst á laggirnar á þessu ári og er ég afar stolt af því og vona svo sannarlega að það haldi áfram. Mönnun á velferðarsviði er mun betri en var hér í upphafi kjörtímabils, sumir gagnrýna það eðlilega en það var mjög mikilvægt þar sem mannabreytingar höfðu verið tíðar á sviðinu m.a. sökum álags. Eins er frábært að fylgjast með jákvæðri þróun í þjónustu við íbúa af erlendum uppruna á síðustu árum.

Umhverfis – og skipulagsmálin
Það var lokið við að samþykkja nýja umhverfis- og loftslagsstefnu nýlega með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Einnig samþykkti sveitarfélagið heildar stefnumótun með sömu áherslum sem er mikilvægt að fylgt verði eftir. Við skrifuðum undir Lofstlagsyfirlýsingu Festu, sveitarfélagið og um 20 fyrirtæki á svæðinu þar sem allir aðilar skuldbinda sig í að gera betur í umhverfis- og loftslagsmálum. Sorpmálin hafa verið til skoðunar allt kjörtímabilið, við höfum verið að draga úr sorpi til urðunar og auka hlutfall endurvinnanlegs úrgangs ásamt því að við erum byrjuð að kortleggja losun kolefnis út í andrúmsloftið hjá sveitarfélaginu. Það er áfram unnið að uppbyggingu fráveitu og höfum nú fengið samþykktan styrk frá ríkinu þar sem sveitarfélagið fær 30% styrk inn í verkefnið. Framkvæmdum við Hafnarbraut mun ljúka næsta sumar, þ.e. lokafrágang en gatan verður alveg til fyrirmyndar að þeim loknum. Ráðinn var umhverfisfulltrúi til sveitarfélagsins sem er nauðsynleg viðbót inn í málaflokkinn.

Samstarf við Vatnajökulsþjóðgarð er afar gott en ég hef setið í stjórn og svæðisráði síðustu 3 árin. Unnið er að innleiðingu atvinnustefnu líkt og kallað hefur verið eftir, deiliskipulag er nú tilbúið við Jökulsárlón og unnið er að undirbúningi framkvæmda. Sveitarfélagið fór í samstarf við þjóðgarðinn með uppbyggingu starfsmannahúsnæðis að Hrollaugsstöðum og er afar mikil ánægja með það. Það eru áform um frekara samstarf í Miklagarði í samræmi við undirritaða samstarfsyfirlýsingu þess efnis, en það er í höndum nýrrar bæjarstjórnar að fylgja því máli eftir.

Skóla- og íþróttamálin
Skóla- og félagsmálin eru fjárfrekustu málaflokkar sveitarfélaga og þar á eftir eru íþrótta- og æskulýðsmál. Rekstur þessara málaflokka er mjög góður og hefur verið um langt skeið. Mönnun leikskólans hefur verið góð undanfarin ár þó starfsmannavelta sé þónokkur. Hlutfall fagmenntaðra starfsmanna er enn of lágt en starfsfólk hefur jafnt og þétt verið að bæta við sig menntun. Opnuð var ungbarnadeild í Selinu við Víkurbraut 24 í haust vegna breytinga á starfsemi dagforeldra og nú er unnið að því að leysa úr húsnæðismálum leikskólans Sjónarhóls þannig að húsnæðið geti tekið á móti öllum þeim börnum sem þurfa á þjónustunni að halda en næsta haust komast öll börn inn á leikskóla sem eru á biðlista, eða öll börn sem hafa náð 12 mánaða aldri.

Bygging íþróttamannvirkja var mikið kosningamál. Fráfarandi meirihluti setti á laggirnar þverpólitískan og þverfaglegan starfshóp um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Starfshópurinn skilaði af sér niðurstöðum sem voru á þá leið að byggja íþróttahús við Sindravelli, austanmegin sem gætu einnig nýst sem ný stúka. Að áliti hópsins var ákjósanlegast að reisa líkamsrækt við sundlaug í áttina að Kaffihorninu. Forgangsröðunin var á þá leið að byrja átti á íþróttahúsi. Þá skall á heimsfaraldur með þeirri óvissu sem fylgdi og ekki síst á fjárhag sveitarfélagsins. Því var tekin ákvörðun um að byrja á byggingu líkamsræktar þannig mætti einnig draga úr rekstrarkostnaði sveitarfélagsins. Samhliða hefur verið unnið að gerð deiliskipulags á miðsvæði svo hægt verði að reisa íþróttahús og er nýtt íþróttahús á fjárhagsáætlun 2023-2025.

Samfélagsmál og samfélagsumræða
Undanfarin fjögur ár hafa verið gríðarlega lærdómsrík fyrir mig persónulega. Ég er afar þakklát fyrir það traust sem ég hef haft í mínum störfum. Samskipti við íbúana hafa verið til fyrirmyndar þó stundum sé tekista á, ég er þakklát fyrir þau samskipti og ekki síður þau sem hafa verið krefjandi. Ég hef átt í afar góðu samstarfi við starfsfólk sveitarfélagsins og er þar unnið af miklum heilindum. Oft þarf að taka erfiðar ákvarðanir sem fylgir starfi sem þessu og sumar þeirra eru ekki vinsælar.

Samfélagsumræðan er oft á tíðum óvægin og ég hef ekki farið varhluta á þeim vettvangi. Ég hef ávallt starfað af heilindum og í takt við mín gildi með jákvæðni að leiðarljósi og af virðingu. Samfélagsmiðlar eru erfiðir viðureignar og má örugglega gagnrýna að upplýsingaflæði hafi ekki verið nægilegt og ég tek þeirri gagnrýni. Umræða þarf að vera gagnrýnin en einnig sanngjörn og rétt. Í umhverfi samfélagsmiðla í dag er oft erfitt fyrir fólk að sigta út það sem er rétt og því er það okkar embættismanna og bæjarfulltrúa að upplýsa á traustum miðlum. Það höfum við reynt af fremsta megni og ég hef gert það með skrifum á heimasíðu sveitarfélagsins og í skýrslu sem þessari sem ég flyt í bæjarstjórn mánaðarlega. Það má alltaf gera betur og allir gera einhvern tíman mistök, það geri ég líka. Sem betur fer læra flestir af mistökum sínum og reyna að gera betur.

Nú ætla ég að ljúka þessum pistli mínum, það er komið að lokum hjá mér. Ég hef lýst mig tilbúna til að halda áfram í störfum sem bæjarstjóri og hver veit nema ég sæki um verði staðan auglýst. Annars fela breytingar alltaf í sér einhver tækifæri og þau munu eflaust bíða mín og fráfarandi bæjarfulltrúa hér í dag. Ég vil þakka bæjarfulltrúum fyrir mjög gott samstarf á þessum fjórum árum. Einnig vil ég þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir samstarfið og íbúum. Það eru íbúarnir sem byggja upp gott samfélag!

Takk fyrir mig

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri