• Hornafjordur_sumar23-9512-1-

Sorpútboð Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2023

6.9.2023

Í þessari grein ætla ég að fara stuttlega yfir helstu atriði er varða sorpútboð sveitarfélagsins, en niðurstöður þess lágu fyrir nýlega. Útboðinu var skipt upp í þrjá einstaka verkþætti og var tilboðsgjöfum heimilt að bjóða í einn eða fleiri verkþátt. Þetta var gert meðal annars til að stuðla að aukinni samkeppni í málaflokknum. Í útboðsgögnum segir að lægsta tilboði í einstaka verkþátt, sem uppfyllir sett skilyrði, skuli tekið.

Alls bárust okkur 14 tilboð eða fjögur tilboð í verkþátt eitt, sorphirðu. Fimm tilboð í verkþátt tvö, rekstur söfnunarstöðvar, og fjögur tilboð í verkþátt þrjú, rekstur urðunarstaðar.

Eftir opnun tilboða komu upp ýmis álitamál s.s. hvort öll tilboðin væru gild og hvort tilboðsgjafar uppfylltu skilmála útboðsins. Á fundi bæjarráðs þann 27. júlí sl. kom ráðgjafi frá verkfræðistofunni Verkís og fór yfir tilboð í sorphirðu, söfnunarstöð og urðunarstað. Niðurstaða bæjarráðs var að fela starfsmanni að ganga til samninga við Funa ehf. í verklið eitt og Hringrás í verkliði tvö og þrjú. Var þessi niðurstaða fengin eftir ítarlega skoðun sérfræðinga sveitarfélagsins og ráðgjafa frá Verkís.

Það er því Funi ehf. sem sjá munu um hirðu úrgangs við heimili og stofnanir og Hringrás, um rekstur söfnunarstöðvar og rekstur urðunarstaðar ásamt jarðgerð í Sveitarfélaginu Hornafirði næstu árin.

Funa ehf. þekkjum við vel enda hafa þau þjónustað íbúa, fyrirtæki og sveitarfélagið í mörg ár. Marteinn og hans fólk hjá Funa kom t.d. að rekstri móttökustöðvarinnar fyrr á árinu þegar dekka þurfti mönnun og þjónustu á móttökustöðinni Gárunni þar til útboð hafði farið fram. Starfsfólk Funa ehf. fólk á þakkir skyldar frá sveitarfélaginu fyrir samstarfið þar. Einnig vil ég nota tækifærið og þakka Rósaberg ehf. fyrir þeirra góðu störf á urðunarstaðnum í Lóni síðustu ár.

Hringrás hefur þegar tekið við flokkunarstöðinni Gárunni og urðunarsvæðinu í Lóni. Hringrás er leiðandi á sviði endurvinnslu hér á landi og ætlar fyrirtækið sér að þjónusta okkur íbúa vel og bjóða upp á ýmsar nýjungar í þjónustu.

Það liggur í hlutarins eðli að sveitarfélög leiti hagræðingar í rekstri og leitist eftir því að taka hagkvæmustu tilboðum. Á þeim grundvelli og með heildarhagsmuni sveitarfélagsins í huga tók sveitarfélagið ákvörðun að semja við þessa aðila og vonast eftir góðu samstarfi um þessa mikilvægu þjónustu næstu fimm árin.

Sigurjón Andrésson bæjarstjóri