Spennandi sýningar í Skaftafelli

24.5.2024

Þrjár nýjar sýningar eru komnar upp í gestastofunni í Skaftafelli og því er boðið til opnunarhátíðar þar milli 15 og 16 í dag.

Þrjár nýjar sýningar eru komnar upp í gestastofunni í Skaftafelli og því er boðið til opnunarhátíðar þar milli 15 og 16 í dag. Ein sýningin Eldur, ís og mjúkur mosi er unnin af Leik- og skólabörnum í Grunnskólanum í Hofgarði undir leiðsögn Evu Bjarnadóttur og nemendum Grunnskóla Hornafjarðar undir leiðsögn Hönnu Dísar Whitehead. Þetta er hluti af samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs, skóla umhverfis Vatnajökul og listafólks í nágrenni þeirra.

Hinar sýningarnar eru fræðslusýning þar sem fjallað er um Skaftafell á víðum grunni, búsetu og jarðfræði svæðisins. Farið er yfir stofnun þjóðgarðsins og að nú er þjóðgarðurinn kominn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Að lokum er sýning sem kallast Frá heimili til heimsminja í betri stofunni: Sýningin er helguð Laufeyju Lárusdóttur sem var húsmóðir í Skaftafelli. Laufey hafði brennandi áhuga á ljósmyndun og gefa myndirnar einstaka sýn inn í lífið í Hæðum fyrir og eftir stofnun þjóðgarðsins. Þær sýna að hluta til horfinn heim en einnig tók Laufey tímalausar myndir af gróðri og landslagi.