Sprunga ofan Svínafellsjökuls og mögulegt berghlaup

9.5.2018

Íbúafundur um sprungu ofan Svínafellsjökuls og mögulegt berghlaup var haldin í gær með íbúum í Öræfum.

Almannavarnir, lögreglan á Suðurlandi, Jarðvísindastofnun HÍ og sérfræðingar veðurstofunnar funduðu með íbúum í Öræfum í gær vegna nýrra upplýsinga um sprungu ofan Svínafellsjökuls og mögulegs berghlaups.  

Haustið 2014 fundu bændur á Svínafelli sprungu ofan Svínafellsjökuls, í norðanverðri hlíðinni milli Skarðatinds og Svarthamra á ofanverðri Svínafellsheiði. Hlíðin á þessum stað er brött og rís um 400 m yfir yfirborð jökulsins. Í vor uppgötvaðist önnur sprunga sem liggur skáhallt niður vesturhlíð Svínafellsheiðar. Líklegt þykir að þessar sprungur tengist og að þær séu mögulega hluti af sömu sprungunni í berggrunni.

Nauðsynlegt er talið að vakta svæðið og gera mælingar í þeim tilgangi að meta hraða og eðli hreyfingarinnar og munu Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands vinna að því í sameiningu. Snemmsumars verður komið fyrir síritandi gliðnunarmælum í sprungunni og síritandi GPS tæki á stykkinu sem er á hreyfingu.

Samfara hlýnandi loftslagi á undanförnum árum og áratugum hafa skriðjöklar hopað og þynnst mikið hér á landi. Þegar jöklarnir hopa standa oft eftir brattar hlíðar ofan skriðjökla sem kunna að vera óstöðugar þegar aðhaldi jökulsins sleppir. Þær geta því hrunið niður á jöklana, stundum í miklum berghlaupum. Slík hlaup eru þekkt víða um heim.

Berghlaup sem falla á jökla geta brotið upp jökulís og hrifið með sér vatn úr jökullónum þannig að úr verður hlaup sem er sambland af jarðefnum, vatni og ís. Slík hlaup geta í sumum tilfellum dreift mikið úr sér og ferðast langar leiðir.

 

Á Svínafellsjökli hefur verið talsverð umferð ferðamanna allt árið um kring. Almannavarnir vilja benda á að við aðstæður eins og hér um ræðir þurfi að gæta sérstakrar varúðar í ferðum á jökulinn vegna hættu á skriðuföllum.

Ítarlegri frétt um málið má finna á vef veðurstofunnar.