Sýningin Náttúrusýn
Velkominn á opnun sýningarinnar "Náttúrusýn" í fremri sal Svavarssafns fimmtudaginn 15 febrúar kl.17:00.
Á þessari sýningu eru kynntar ljósmyndir af nokkrum geimþokum, ljósmynduðum frá Íslandi. Til þess að öðlast dýpri sýn á stjörnuhiminninn eru teknar myndir af daufum geimþokum, torséðum eða ósýnilegum í sjónskoðun. Ljósi þeirra er safnað á myndir með löngum myndatökum. Í sumar myndirnar á sýningunni hefur ljósi verið safnað með 30 mín tökum í 12-24 klukkustundir.
Í myndatökum var notuð ljósflögumyndavél og linsusjónauki á rafdrifnu stæði. Myndað er í gegnum sérhæfðar ljóssíur til að draga fram liti. Tvær gerðir eru notaðar: annars vegar ljóssíur sem afmarka vítt tíðnisvið í rauðu, grænu og bláu ljósi (RGB). Með slíkum síum er náttúrulegt ljós geimþokanna fangað, sem hæfir okkar sjón.
Hins vegar eru teknar myndir með litsíum sem eru skorðaðar við þær örfáu bylgjulengdir ljóss sem skín frá geimþokum. Það ljós stafar frá jónuðum brennisteini (SII), vetnis-alfa (Ha) og tvíjónuðu súrefni (OIII). Þar sem tvær þeirra eru rauðar hæfir ekki að litblanda þær sem RGB heldur er notað litspjald sem er kennt við Hubble-geimsjónaukann. Fyrir vikið birtast ekki raunlitir geimþoka, sem eru að megninu til rauðir, heldur falslitir en með þeim er hægt að draga fram sérkenni í þokunum.
Höfundurinn er Snævarr Guðmundsson en hann hefur verið einlægur stjörnuathugandi í 30 ár. Hann hefur notað meira en 1200 nætur til athugana á stjarnfyrirbærum. Á þeim tíma hefur hann sinnt ljósmyndun geimfyrirbæra og ljósmælingar á breytistjörnum og fjarreikistjörnum.
Sýningin stendur frá 15. febrúar – 15.04.