Staðan í dag 27.3 – Covid-19
Í dag eru 4 vikur frá því að fyrsta tilfellið greindist á Íslandi. Miðað við spálíkön ætti hámarkið að nást á Íslandi um miðjan apríl og ætti að ganga niður eftir það.
Ég vil benda á áhugaverðar upplýsingar á covid.hi.is þar sem skoða má spálíkanið og einnig var kynning Thors Aspelund á daglega fréttafundi Almannavarna í gær mjög fróðleg.
Ástandið hér á Hornafirði er enn stöðugt og árangur virðist vera af þeim aðgerðum sem hér hefur verið beitt. Svipaður fjöldi einstaklinga er í sóttkví en nokkrir eru að nálgast útskrift úr henni. Það kostar þolinmæði að halda þetta út og án ef eru margir að verða þreyttir á áhrifum samkomubanns.
Við verðum þó að þreyja þorrann og reyna að finna nýjar leiðir til samskipta. Kórar eru að bjóða upp á æfingar í gegnum fjarfund, þjálfarar bjóða upp á jóga, zumba eða annað á sama formi sem er frábært. Þessir tímar eru skrítnir en það er nauðsynlegt að sjá björtu hliðarnar á aðstæðunum. Við getum verið þakklát fyrir víðernið hér í kringum okkur þar sem við getum stundað útivist og notið náttúrunnar. Veðurspá helgarinnar er okkur hliðholl að þessu sinni sól og blíða, hitinn á að ná 9°C á sunnudag.
Við hvetjum fólk til að fylgja fyrirmælum um samkomubann það er að skila árangri og njóta veðurblíðunnar sem við munum njóta um helgina. Að því sögðu óska ég Hornfirðingum góðrar helgar.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjastjóri