Staðan í dag 29. mars - Covid-19
Almannavarnir ríkisins og sóttvarnalæknir hafa beint því til aðgerðastjórna landshlutanna að birta tölur um fjölda smitaða eingöngu fyrir sinn landshluta. Sveitarfélagið Hornafjörður tilheyrir Suðurlandi og er heildarfjöldi smitaðra á Suðurlandi 102 samkvæmt covid.is .
Af gefnu tilefni tel ég rétt að kynna betur ástæður þessa. Um heilbrigðisupplýsingar gilda strangari reglur en lög um persónuvernd segja til um. Af þeim ástæðum hefur sóttvarnalæknir á fundum sínum með aðgerðarstjórnum landshlutanna ítrekað það að ekki séu gefnar upp tölur um fjölda smitaðra í hverju sveitarfélagi. Það er ekki vegna þess að verið sé að leyna upplýsingum heldur er verið að starfa samkvæmt lögum.
Sveitarfélagið Hornafjörður hefur lagt sig fram við að upplýsa íbúa nær daglega um þróun mála og mun svo vera áfram. Staðan í dag er sú að enn er um stöðugt ástand að ræða. Ef breytingar verða á munum við koma þeim upplýsingum til skila. Mikilvægustu skilaboðin eru þau að í gildi er samkomubann og faraldurinn hefur enn ekki náð hámarki á landsvísu. Því ber okkur öllum að fara eftir reglum um samkomubann um fjöldatakmarkanir og að halda uppi 2 metra fjarlægð á milli manna ásamt því að viðhalda hreinlæti s.s. handþvotti.
Ég hef orðið vör við mikla óánægju bæjarbúa á samfélagsmiðli sveitarfélagsins og er þessi pistill viðbrögð við því. Við erum ekki að leyna íbúum upplýsingum og ég bið ykkur kæru íbúar að sýna því skilning. Beinum kröftum okkar í að standa saman í baráttunni við veiruna sem er að hafa neikvæð áhrif á samfélagið okkar. Styðjum okkar fólk sem vinnur í heilbrigðisþjónustunni og starfsmenn sveitarfélagsins sem vinnur hörðum höndum að því að halda starfsemi gangandi í þessum erfiðu aðstæðum. Reynum að sjá það jákvæða í stöðunni og hvetja hvort annað áfram!
Kær kveðja,
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri