Staðan í dag 26. mars–Covid-19

26.3.2020

Í dag eru 802 smit á Íslandi og af þeim liggja 17 á sjúkrahúsi. Börn undir 10 ára aldri veikjast síður en þeir eldri, 15 jákvæð sýni eru af um 800 sýnum sem hafa verið tekin. Það er ljóst að börnin sleppa nokkuð vel.

 Heildarfjöldi smitaðra á Suðurlandi eru 84 og er aukning tilfella á landinu öllu með því lægsta sem gerist í Evrópu og á Íslandi eru flest sýni tekin á heimsvísu.

Hér á Hornafirði gengur vel að halda dreifingu smita í skefjum eins og er, einstaklingar í sóttkví eru af svipaðum fjölda. Heilsugæslan er að ná að þjónusta fólk í gegnum síma og frekar lítið er um slys í samfélaginu sem betur fer, gott að fara varlega á þessum tímum. Mikið er um veikindi, hálsbólgur, kvef og barnavírusa. Við beinum því til íbúa að ef þeir finna fyrir einkennum flensu eða annars þá að halda sig heima við á meðan veikindin ganga eftir.

Sveitarfélagið hefur nú tekið saman upplýsingar um opnun og þjónustu veitingastaða og hvetjum við íbúa til að nýta sér þjónustu þeirra til að halda uppi veltu í samfélaginu. Búið er að setja upp sér síðu sem heldur utan um upplýsingar tengt Covid-19 á heimasíðunni til að auðvelda upplýsingagjöf.

Bent er á þjónustu Rauðakrossins í símanúmerinu 1717 ef einstaklingar óska eftir stuðningi í formi símtala eða annað sem herjar á.