Stafræn innleiðing – betri þjónusta

27.1.2023

Sveitarfélagið Hornafjörður er meðal fremstu sveitarfélaga á sviði stafrænnar þjónustu. Stafræn þjónusta eykur skilvirkni og bætir þjónustu við íbúa.

Frá árinu 2012 hefur sveitarfélagið unnið að framþróun í stafrænni stjórnsýslu. Með aukinni stafrænni þjónustu eykst skilvirkni, sóun á pappír verður minni og sveitarfélagið verður samkeppnishæfara. Stafræn þjónusta er líka örugg, einföld og notendavæn.

Sveitarfélagið hefur nú stigið mikilvægt skref á sinni stafrænu vegferð með rafrænni undirritun gagna. Þannig geta viðskiptavinir sveitarfélagsins undirritað samninga eða skjöl í gegnum íbúagáttina með símanum sínum og fundargerðir sveitarfélagsins verða einnig undirritaðar með rafrænum hætti.

Í upphafi stafrænnar innleiðingar sveitarfélagsins var tekin í notkun fundargátt þar sem fundarmenn fengu aðgang að gögnum sínum. Næsta skref var setja íbúagátt í loftið en þar geta íbúar geta skoðað reikninga sína og stöðu þeirra en einnig sent inn fyrirspurnir og skoðað ferli mála sem þau eru málsaðili að.

Í framhaldinu voru flestar umsóknir sveitarfélagsins settar inni á íbúagáttina og fara þær rafrænt beint inn í málakerfi okkar þar sem viðkomandi starfsmaður fær tilkynningu um að hún hafi borist og getur hann strax brugðist við og svarað. í dag er hægt að senda inn 61 mismunandi umsókn á íbúagáttina.

Stafrænt kerfi hjá byggingarfulltrúa var sett á fót árið 2020 og síðan þá hafa borist yfir 100 umsóknir um byggingarleyfi í gegnum íbúagáttina.

Nú er verið ljúka við uppsetningu rafrænna undirritana vegna hönnunargagna. Ferli byggingarleyfisumsókna hjá sveitarfélaginu er því algjörlega orðið rafrænt. Einnig er hægt að nálgast teikningar af húsum í sveitarfélaginu og gögn um skipulag sveitarfélagsins á www.map.is/hofn

Á síðasta ári þróaði svo sveitarfélagið, í samstarfi við Onesystems, allt ferli skipulagsmála rafrænt. Það þýðir að þegar skipulag er samþykkt, þá heldur kerfið utan um ferli mála og starfsfólk hefur góða yfirsýn. Hægt er að senda rafrænt beint á þá aðila sem eiga að veita umsagnir og athugasemdir og fengið þær til baka. Um leið og Skipulagsstofnun mun bjóða upp á að taka á móti rafrænum uppdráttum þá verður sveitarfélagið tilbúið og vonumst við til að það klárist innan skamms.

Með innleiðingu rafrænna undirritunar og stafrænu ferli skipulagsmála er Sveitarfélagið Hornafjörður komið í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi í innleiðingu stafrænnar stjórnsýslu og þannig höfum við stórbætt þjónustu við okkar íbúa og aðra viðskiptavini.