Starfastefnumót
Fimmtudaginn 15. september var haldið Starfastefnumót í Nýheimum þar sem 46 aðilar í Sveitarfélaginu Hornafirði kynntu með einum eða öðrum hætti starfsemi og starfsgreinar sinna fyrirtækja og stofnana.
Markmiðið með Starfastefnumótinu var að veita ungum sem öldnum innsýn inn í þá fjölbreyttu starfaflóru sem leynist í sveitarfélaginu, auk þess sem áhugasömum var bent á mögulegar menntunarleiðir fyrir þau störf sem vöktu áhuga.
Óhætt er að segja að viðburðurinn hafi verið vel heppnaður og ánægjuefni hversu margir lögðu leið sína í Nýheima þennan dag. Það sem helst stendur eftir er einstakur samfélagsviðburður sem einkenndist af jákvæðni og samstöðu allra sem að honum komu.
Viðburðurinn var samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Þekkingarsetursins Nýheima, auk þess sem hann var styrktur af Vinnumarkaðsráði Austurlands. Ráðinn verkefnastjóri viðburðarins var Hugrún Harpa Reynisdóttir, verkefnastjóri Nýheima.
Margir komu að undirbúningi og framkvæmd viðburðarins og vilja aðstandendur Starfastefnumóts í Hornafirði færa eftirtöldum aðilum einlægar þakkir fyrir þeirra framlag þeirra og stuðning;
Vinnumarkaðsráð Austurlands, SASS, Hótel Höfn, Eystrahorn, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og Róbert Guðfinnsson, athafnamaður.
Þau fyrirtæki og stofnanir sem lögðu til vinninga vegna spurningaleiks Starfastefnumóts fá bestu þakkir fyrir sinn stuðning.
Hugrúnu Hörpu Reynisdóttur, verkefnastjóra Starfastefnumóts færðar hugheilar þakkir fyrir virkilega vel unnin störf vegna viðburðarins.
Að síðustu fá öll þau 46 fyrirtæki og stofnanirnar sem þátt tóku í Starfastefnumótinu, allir þeir kraftmiklu sjálfboðaliðar sem lögðu hönd á plóg sem og góðir gestir innilegar þakkir fyrir að hafa gert daginn að raunveruleika.
F.h. undirbúningshóps Starfastefnumóts á Hornafirði,
Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi
Ragnhildur Jónsdóttir, fræðslufulltrúi