Starfsemi sláturhússins á Höfn

4.4.2019

Í lok maí á síðasta ári var samið um það milli Norðlenska matborðsins ehf. og Sláturfélagsins Búa svf. að leigusamningi Norðlenska á sláturhúsinu og þar með starfsemi þeirra, sem verið hefur frá árinu 2005, lyki þann 30. júní 2019.

 

Á aðalfundi Sláturfélagsins Búa svf. þann 12. apríl 2018 var samþykkt áskorun á stjórn félagsins að leita allra leiða til að tryggja áframhaldandi rekstur sláturhússins á Höfn eftir að leigusamningi Norðlenska lyki. 

Stjórn félagsins hefur frá þessum tíma unnið að þessu markmiði með margvíslegum hætti og um skeið leit út fyrir að búið væri að leggja grundvöll að áframhaldandi starfsemi sláturhússins. Því miður brugðust þær vonir óvænt í byrjun marsmánaðar og nú liggur ljóst fyrir að ekki mun verða hefðbundinn rekstur sláturhússins eftir 30. júní n.k. og Norðlenska matborðið ehf mun hætta starfsemi sinni hér á Höfn á þeim tíma.

Stjórn félagsins mun áfram kanna hvaða grundvöllur gæti verið fyrir starfsemi í húsinu þó svo að hún verði með öðrum hætti en verið hefur undanfarna áratugi.

Stjórn Sláturfélagsins Búa svf.