Starfshópur um leikskólamál - að tryggja farsæld barna og fjölskyldna
„Við erum nú hálfri öld frá þeim stað þegar konur áttu ekkert val eftir að barn var komið í heiminn. Barátta okkar endaði hins vegar í hinum öfgunum, ekkert val nema senda barn að heiman og fara sjálf í vinnuna, vinnu sem er ekki alltaf vel launuð og spennandi þótt sé sárt að viðurkenna það. Áfram gakk, elsku fólk! Tökum nú næstu hálfa öld í nýjum takti og í liði með börnum“.
„Við erum nú hálfri öld frá þeim stað þegar konur áttu ekkert val eftir að barn var komið í heiminn. Barátta okkar endaði hins vegar í hinum öfgunum, ekkert val nema senda barn að heiman og fara sjálf í vinnuna, vinnu sem er ekki alltaf vel launuð og spennandi þótt sé sárt að viðurkenna það. Áfram gakk, elsku fólk! Tökum nú næstu hálfa öld í nýjum takti og í liði með börnum“. Úr erindi Sunnu Kristínar Símonardóttur doktors í félagsfræði 23. nóv. 2023.
Ofangreind tilvitnun er kannski lýsandi fyrir það verkefni sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í leikskólamálum. Á 50 árum höfum við farið úr því að hafa fáa leikskóla með stuttan vistunartíma yfir í fjölda leikskóla með langan opnunartíma og ætlast er til að öll börn komist að við 12 mánaða aldur. Þetta gerðist í kjölfar þess að konur fóru í auknum mæli út á vinnumarkaðinn en aukin atvinnuþátttaka kvenna er ein grunnforsenda þess að á síðustu 100 árum hefur þjóðin farið frá því að vera meðal fátækustu þjóða heims yfir í að vera meðal ríkustu. Þessar samfélagsbreytingar hafa ekki verið átakalausar og enn erum við að vinna að bestu útgáfunni af því samfélagi sem við viljum búa í. Samfélagi þar sem jöfnuður ríkir og allir fá notið hæfileika sinna. Samfélagi þar sem börn og fullorðnir ná að uppfylla þarfir sínar í sátt við umhverfið og án þess að ganga á þarfir annarra.
Hlutverk starfshóps um leikskólamál er að vinna að því að bæta samfélagið með því að styðja við og styrkja leikskólastarf með farsæld barna og fjölskyldna í huga samhliða vellíðan og ánægju starfsmanna. Starfshópurinn hóf störf í byrjun september og er honum ætlað að skila tillögum og ljúka störfum 1. febrúar 2024. Verkefni starfshópsins er að skoða stefnu sveitarfélagsins í málefnum leikskólans almennt með menntastefnu Hornafjarðar til hliðsjónar. Horft er sérstaklega til þátta sem snúa að aðbúnaði og kjörum starfsfólks sem geti komið til móts við mönnunarvanda sem leikskólinn hefur staðið frammi fyrir. Auk þess er horft til þess hvernig megi efla menntunarstig starfsfólks og styrkja þannig leikskólastarfið.
Hópurinn sem hefur fundað sjö sinnum það sem af er hefur m.a. kynnt sér hvað önnur sveitarfélög eru að gera varðandi sín leikskólamál. Leikskólafulltrúi Hafnarfjarðar var t.a.m. með erindi fyrir hópinn og fyrr í haust var fulltrúum boðið að hlýða á erindi frá Kópavogsbæ, Reykjavík og Vestmannaeyjum. Fjölmörg mál hafa komið til umræðu og vonandi eiga þær tillögur sem fram koma eftir að hafa jákvæð áhrif.
Við erum í hringiðu samfélagsbreytinga þar sem fjölmörg öfl togast á. Efnahags- og atvinnumál, umhverfismál, geðrækt, heilsuefling, fjölskyldan og ótal fleiri. Þessi öfl togast á um líf okkar og reyna að hafa áhrif á gildi okkar. Markmiðið sveitarfélagsins er þó ávallt að tryggja farsæld barna og fjölskyldna. Leiðir til að ná þessum markmiðum eru ekki endilega augljósar og togkraftar hinna ólíka afla hafa þar áhrif. En meðan við erum í hringiðunni og reynum að finna leið sem hentar öllum, sérstaklega börnum er mikilvægt að sýna foreldrum, börnum og leikskólastarfsfólki mildi og skilning. Það eru allir að reyna að gera sitt besta við þurfum öll að hjálpast að.
Í starfshóp um leikskólamál sitja fyrir hönd sveitarstjórnar Þóra Björg Gísladóttir, Kristján Örn Ebenezarson og Gunnhildur Imsland. Kolbrún Rós Björgvinsdóttir er fulltrúi foreldra, Maríanna Jónsdóttir fulltrúi stjórnenda á leikskólanum og Svava Kristín Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna. Þórgunnur Torfadóttir er starfsmaður hópsins. Auk þess hefur foreldraráð leikskólans verið í virku samráði við starfshópinn.