Starfshópur um leikskólamál og leikskólaráð
Ráðning verkefnastjóra, uppfæra reglur um námsstyrk hjá starfsfólki leikskóla, bæta við skipulagsdegi, hafa starfsmannafundi milli 8 og 9 á morgnana og hækka heilsueflingarstyrk eru aðgerðir til eflingar leikskólastarfs í Sveitarfélaginu Hornafirði
Á fundi fræðslu og frístundanefndar 15. ágúst síðastliðinn var ákveðið að setja á laggirnar starfshóp um leikskólamál eftir hvatningu þess efnis frá bæjarráði. Víða um land hafa slíkir starfshópar verið skipaðir í kjölfar þess að mönnun á leikskólum hefur verið snúin, skortur er á menntuðu starfsfólki á leikskólum og flótti hefur verið úr leikskólum í grunnskóla á landsvísu. Starfshópurinn sem var skipaður fulltrúum frá pólitíkinni, fulltrúum foreldra, fulltrúum starfsmanna og fulltrúum stjórnenda auk sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs var ætlað að koma með tillögur til að styðja við ytra starf leikskólans.
Niðurstaða starfshópsins var að það þyrfti að grípa til aðgerða á fjórum mismunandi sviðum til að efla leikskólastarfið. Skýrsla starfshóps um leikskólamál (hornafjordur.is)
1. Aðgerða sem snúa að fjölgun starfsfólks og að draga úr álagi.
2. Aðgerða sem snúa að því að efla menntun starfsmanna.
3. Aðgerða sem miða að því að vera stuðningur og hvatning til starfsþróunar.
4. Aðgerða sem snúa að starfsmönnum og gætu bætt kjör þeirra án þess að farið sé inn á valdsvið kjarasamninga.
Starfshópurinn kom með nokkrar tillögur á hverju sviði. Bæjarráð tók síðan ákvörðun um hvaða aðgerðir urðu fyrir valinu. Þær voru;
1. Ráðning verkefnastjóra í tímabundið starf til eins árs til að styðja við faglegt starf, móttöku nýrra starfsmanna og stækkun leikskólans.
2. Uppfæra reglur um styrki og sveigjanleika til náms hjá starfsfólki leikskólans.
3. Bæta við einum skipulagsdegi á næsta skólaári og hafa starfsmannafundi milli 8 og 9 á morgnana.
4. Hækka heilsueflingarstyrk starfsfólks sveitarfélagsins úr 15.000 kr. í 20.000 kr. auk þess sem starfsfólk sveitarfélagsins fái frítt í sund.
Starfshópurinn vann í nánu samráði við leikskólaráð sem stofnað var á sama tíma. Leikskólaráð var skipað deildarstjórum og yfirmönnum á leikskólanum auk sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs. Hlutverk þess var að efla og styðja við innra starfið á leikskólanum. Í skýrslu leikskólaráðs frá í febrúar kemur fram að það álítur innri vanda leikskólans felast í þremur megin þáttum.
a) Mönnunarmál – mikil starfsmannavelta hefur verið á leikskólanum síðustu ár og erfitt hefur reynst að manna leikskólann. Það hefur t.d. leitt til þess að á leikskólanum eru margir af erlendu bergi brotnir sem tala litla íslensku. Þrátt fyrir að það sé upp til hópa ágætisstarfsfólk þá er snúið að þurfa að útskýra allt á erlendu tungumáli (sem er svo jafnvel túlkað) auk þess sem börnin skilja starfsfólkið ekki og þetta starfsfólk getur að sjálfsögðu ekki stutt við máltöku barnanna. Auk þess er eru mjög fáir starfsmenn sem hafa meiri en 5 ára starfsreynslu og það gefur augaleið að það þyngir starfið til muna. Markmiðið er að gera leikskólann að eftirsóknarverðum og vel mönnuðum vinnustað.
b) Starfsandi og líðan starfsfólks hefur verið ábótavant. Það kemur fram í starfsmannapúlsinum og í veikindaforföllum og öðrum fjarvistum. Markmiðið er að bæta starfsanda og líðan starfsmanna þannig að leikskólinn verði eftirsóknarverður og vel mannaður vinnustaður.
c) Skipulag og stjórnun. Ljóst að mikið af óánægju starfsmanna væri hægt að laga með betra skipulagi og markvissari stjórnun. Markmiðið er að bæta skipulag og stjórnun þannig að leikskólinn verði eftirsóknarverður og vel mannaður vinnustaður.
Leikskólaráð hafði aðkomu að því hvað aðgerðir voru settar í forgang hjá bæjarráði og var því samstaða um til hvaða aðgerða yrði gripið. Ráðstafanir hafa verið gerðar vegna allra þessara aðgerða. Þrjá eru þegar komnar í framkvæmd og sú fjórða fer í gegn á næstu vikum.
Á fundi bæjarráðs 20. mars síðastliðinn var reglum um námsstyrk fyrir starfsfólk leikskóla breytt. Reglur-um-framlag-til-heilsueflingar-starfsmanna-2024.pdf (hornafjordur.is).
Á fræðslu- og frístundanefndar 20. mars síðastliðinn var skóladagatal Sjónarhóls samþykkt og þar var búið að fjölga skipulagsdögum á leikskólanum í 8 en þar af eru tveir hálfan daginn. Á skóladagatali sem er á heimasíðu Sjónarhól má sjá hvaða dagar það eru og einnig hvaða daga starfsmannafundir verða en nú verða þeir milli 8 og 9 á morgnana leikskóladagatal 2024-25.pdf (leikskolinn.is).
Á bæjarstjórnarfundi 11. apríl síðastliðinn voru nýjar reglur um heilsueflingu starfsmanna samþykktar Reglur-um-framlag-til-heilsueflingar-starfsmanna-2024.pdf (hornafjordur.is).
Auglýst verður eftir verkefnastjóra á leikskólann Sjónarhól í lok þessa mánaðar.
Auk þessa voru settir á svokallaðir skráningardagar á leikskólanum síðasta haust sem hafa létt gríðarlega á því þegar starfsfólk er að taka út styttingu vinnuvikunnar.
Það má því segja að búið sé að gera umtalsverðar breytingar á leikskólanum til að stuðla að því að vinnustaðurinn verði bæði eftirsóknarverður og vel mannaður. Áfram verður þó unnið að innra skipulagi og stjórnun en miklar vonir eru bundnar við að þessar breytingar skili árangri og leikskólinn verði eftirsóknarverður vinnustaður og vel mannaður.