Sumarsýning í Svavarssafni

27.5.2019

Velkomin á opnun sumarsýningar Svavarssafns Orkuhreyfingin sunnudaginn 2. júní kl. 17:00.

Tengsl manna við náttúruna eru margs konar og mismikil. Náttúran býr yfir mikilli orku og er kvik. Hún stöðvast aldrei, vötn streyma, fuglar svífa, jöklar hörfa, aldan rís og hnígur, vindarnir færa allt til og undir því sem augað sér eru aflmiklar hræringar.

Á sýningunni eru verk eftir Svavar Guðnason, Hildi Steinþórsdóttur og Rúnu Thors. Svavar Guðnason talaði um hlutverk náttúrunnar í verkum sínum, hrynjandina í landslaginu, víðáttuna og hreyfinguna - orkuhreyfinguna. Í samtali listamannanna er þessi hreyfing ýfð upp, rannsökuð, skoðuð og sett í sterkt samhengi við uppsprettuna - náttúruna. Verkin mynda tengingar við fjöllin, ísinn og ljósið. Vatnið flæðir og gefur steypu og litum líf.