Sveitarfélagið hlaut jafnlaunavottun

22.10.2020

Í vikunni hlaut Sveitarfélagið Hornafjörður jafnlaunavottun, undirbúningur fyrir vottunina hefur staðið yfir í rúmt ár. Sverrir Hjálmarsson, mannauðs- og gæðastjóri sveitarfélagsins, hefur leitt vinnuna og þróað jafnlaunakerfi sem nú hefur verið innleitt.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum. Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi, á grundvelli hans geta fyrirtæki og stofnanir fengið jafnlaunavottun. 

Við innleiðinguna var meðal annars könnuð staða kynbundins launamunar hjá sveitarfélaginu. Sú vinna leiddi í ljós að kynbundinn launamunur mælist nú aðeins 0,9%, konum í hag, sem er með því lægsta sem þekkist.

Sveitarfélagið er stolt af þessum góða árangri í jafnréttismálum og fagnar því að vera komið í hóp sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja sem hafa stigið þetta mikilvæga skref í átt að auknu jafnræði í íslensku samfélagi.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest á s.l. ári með lögum nr. 56/2017 sem fela í sér breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum.

Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og séu þau uppfyllt veitir hann viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun.