Sveitarfélagið Hornafjörður - Barnvænt sveitarfélag
Í dag föstudaginn 4. apríl komu fulltrúar UNICEF á Íslandi, Marín Rós Eyjólfsdóttir og Birna Þórarinsdóttir til Hafnar í Hornafirði til að veita Hornfirðingum viðurkenningu sem fjórða Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi. Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í Íþróttahúsinu að viðstöddu ungmennaráði Hornafjarðar, fulltrúum bæjarstjórnar og bæjarstjóra, nemendum úr FAS, nemendum Grunnskóla Hornafjarðar, elstu tveimur árgöngum leikskólans Sjónarhóls, nemendum grunnskólans í Hofgarði ásamt mörgum öðrum góðum gestum.
Ungmennaráð Hornafjarðar leiddi athöfnina af öryggi og krafti og sýndu m.a. myndband myndband sem þau gerðu um vegferðina að því að verða Barnvænt sveitarfélag. Barnaleikhópurinn hennar Ágústu sýndi líflegt atriði sem vakti mikla lukku og svo stýrðu Jóhann tónskólastjóri og Hrafnkell tónmenntakennari hópsöng sem sameinaði salinn í samhug og gleði.
Athöfninni lauk á því að Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF afhenti fulltrúa ungmennaráðs og bæjarstjóra formlega viðurkenningu frá UNICEF sem Barnvænt sveitarfélag. Eftir það var tekin hópmynd þar sem allir þátttakendur stilltu sér upp til að fanga augnablikið og í lokin var boðið upp á muffins og kleinur sem Sigrún Ingólfs bakaði ásamt safa og kaffi.
Innleiðing á verkefninu hófst þann 19. janúar 2020 þegar samstarfssamningur var undirritaður af Ásmundi Einari Daðasyni, þáverandi félags- og barnamálaráðherra, Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi og Matthildi Ásmundsdóttur, þáverandi bæjarstjóra Hornafjarðar. Markmið verkefnisins er að innleiða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu sveitarfélagsins og tryggja að hagsmunir barna séu hafðir að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku og stefnumótun.
Í lok árs 2023 skilaði sveitarfélagið inn fyrstu aðgerðaráætlun sinni, sem fékk samþykki UNICEF í janúar 2024. Í framhaldinu tók við framkvæmdartímabil sem lauk með úttektarskýrslu í mars 2025. Með samþykki UNICEF á þeirri skýrslu var staðfest að Hornafjörður uppfyllir öll viðmið og skilyrði til að geta kallast Barnvænt sveitarfélagi.
Verkefninu er þó hvergi nærri lokið og þarf á þriggja ára fresti að skila inn nýrri aðgerðaráætlun og sýna fram á að unnið sé að henni til að halda viðurkenningunni.
En afhverju er þetta mikilvægt?
Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims og hefur verið lögfestur víða um veröld. Á Íslandi var hann samþykktur árið 1992 og lögfestur árið 2013. Í Barnasáttmálanum eru tilgreind 42 atriði sem eru réttindum barna og okkur ber að virða og fara eftir. Verkefnið Barnvænt sveitarfélag hjá UNICEF er í raun bara aðferð til að temja sveitarfélögum að virða Barnasáttmálann og taka tillit til þarfa og réttinda barna og huga að því hvaða áhrif allar ákvarðanir sem við tökum hafa á börn.
Ekkert um börn án barna – allt sem er gott fyrir börn er líka gott fyrir alla aðra.