Sveitarfélagið Hornafjörður – sjálfbært samfélag með vistvænum samgöngum, útivist og auknu íbúalýðræði

10.5.2019

Vorið 2017 auglýsti Norræna ráðherranefndin, á heimasíðu Skipulagsstofnunar, til umsóknar þátttöku í verkefni sem bar titilinn „Attractive Towns. Green redevelopment and competitiveness in Nordic urban regions. Towns that provide a good life for all.”

Snéri verkefnið að því að efla litla og meðalstóra bæi á Norðurlöndunum, með auknu aðdráttarafli og sjálfbærni. Meginmarkmiðið með verkefninu er að móta sameiginlega norræna stefnu um hvernig þessir bæir gætu orðið meira aðlaðandi með þróun líflegs og sjálfbærs þéttbýlis með því að hafa að leiðarljósi Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Fjögur íslensk sveitarfélög voru samþykkt í verkefnið, eru það Sveitarfélagið Hornafjörður, Fljótsdalshérað, Akranes og Mosfellsbær. Einnig taka tólf önnur sveitarfélög frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi þátt í verkefninu.

Undirbúningsráðstefna verkefnisins var haldin í Osló í Noregi í september 2017. Þar komu saman fulltrúar allra þátttökusveitarfélaganna til að hefja vegferðina og stilla saman strengi fyrir næstu tvö árin. Sveitarfélögunum sextán var skipt í fjóra hópa þar sem tekið var mið af þeim áskorunum og tækifærum sem bæirnir stóðu frammi fyrir og var gert grein fyrir í umsóknunum. Í framhaldi af því þróaði hver hópur verkefni sem sveitarfélögin skyldu taka sér fyrir hendur. Þær Árdís Erna Halldórsdóttir atvinnu- og ferðamálafulltrúi og Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður Nýheima Þekkingarseturs sóttu ráðstefnuna fyrir hönd Sveitarfélagsins Hornafjarðar, og hafa þær í framhaldinu haldið utan um verkþætti sveitarfélagsins í heildarverkefninu.

Unnið hefur verið þétt með kjörnum fulltrúum í ferlinu, en á vinnustofu sem haldin var með öllum fastanefndum í sveitarfélagsins í nóvember 2017 kom fram að mikil vannýtt tækifæri væru til útivistar og afþreyingar, auk þess sem gæði opinna svæða og vistvænar samgöngur voru áhersluatriði sem komu ítrekað fram á vinnustofunni. Var því höfuðáhersla lögð á að vinnan fæli í sér mótun heildstæðs skipulags á Höfn með áherslu á vistvæna ferðamáta (göngu- og hjólastíga), opin svæði og útivistarsvæði.

Tilgangurinn er að skapa heilsueflandi, sjálfbært og aðlaðandi bæjarfélag þar sem náttúrulegt umhverfi og stuttar vegalengdir fela í sér einstakt tækifæri til þess að verða sjálfbærari og umhverfisvænni á víðtækan hátt. Verkefnið leggur jafnframt ríka áherslu á þátttöku íbúa við myndun slíkrar framtíðarsýnar fyrir sveitarfélagið og er því stór þáttur þess að stuðla að tækifæri íbúanna til að hafa mótandi áhrif á gerð skipulags á því svæði sem þeir sjálfir eru notendur að. Í verkefninu verður farin sú leið að bjóða íbúum upp á þátttöku í sérhannaðri spurningakönnun til að auka aðkomu íbúa að skipulagsferlinu. Könnunin verður kynnt nánar á íbúafundi í Nýheimum miðvikudaginn 15. maí kl. 20:00 og eru íbúar hvattir til að mæta og kynna sér málið enn frekar.

F.h. verkefnastjóra,

Árdís Erna Halldórsdóttir

Atvinnu- og ferðamálafulltrúi