Undirritun loftlagsyfirlýsingar í Sveitarfélaginu Hornafirði

26.2.2021

Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar undirritaði í dag loftslagsyfirlýsingu Festu - samfélagsábyrgð og sveitarfélagsins ásamt forsvarsmönnum 20 fyrirtækja í sveitarfélaginu.

Í yfirlýsingunni kemur fram að helstu markmiðin í loftlagsyfirlýsingunni eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Minnka myndun úrgangs, mæla árangurinn og gefa út upplýsingar um stöðu og árangur. Til að styðja við þessa vegferð býður Festa upp á loftslagsmæli sem er öllum aðgengilegur án endurgjalds.

Loftslagsyfirlýsingin var þróuð af Festu og Reykjavíkurborg og var fyrst undirrituð í Höfða árið 2015 af forstjórum yfir eitt hundrað fyrirtækja og stofnana í aðdraganda Parísarráðstefnunnar um loftslagsmál (COP21). Sveitarfélagið Hornafjörður er þriðja sveitarfélagið á landinu sem skrifar undir slíka yfirlýsingu.

Matthildur sagði í erindi sínu að umhverfisáhrifin í Sveitarfélaginu Hornafirði eru hvað mest sýnileg á landinu með Vatnajökul í bakgarðinum. Íbúar horfa á skriðjöklana minnka ár frá ári og erum að glíma við náttúruvá af völdum bráðnunar jökla m.a. á Svínafellsheiði. “ Í dag kynnti ég drög að stefnumótun fyrir sveitarfélagið þar sem við ætlum okkur að vera í fararbroddi á landsvísu í umhverfismálum. Til að svo geti orðið þurfa fyrirtæki að leggja sitt lóð á vogarskálarnar þess vegna höfum við ákveðið að vinna með Festu í því að fá stuðning og fræðslu með það að markmiði að sveitarfélagið geti orðið kolefnishlutlaust á allra næstu árum. Jafnframt hvetur það íbúa til góðra verka því við þurfum öll að hjálpast að til að ná árangri í umhverfismálum.“

Sveitarfélagið frumsýndi nýtt Myndband um umhverfismál í athöfninni ásamt því að Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir loftlagsaktivisti flutti hugvekju um umhverfismál. 

Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu sagði í erindi sínu að það er kraft-gefandi að sjá svona sterkan ásetning hjá Sveitafélaginu Hornafirði að hleypa Loftslagsyfirlýsingunni úr hlaði á þessum tíma, - og láta ekki deigan síga þrátt fyrir covid-tengdar áskoranir. "Magnað að finna kraftinn í atvinnulífinu þar á bæ, þar sem 20 aðilar skrifa undir í dag. Festa er stolt af þessu samstarfi og við hlökkum til að sjá árangur aðgerðanna sem undirritunaraðilar skuldbinda sig til að grípa til. Festa býður til afnota verkfæri og leiðbeiningar til að setja sér markmið, fylgja þeim eftir og mæla árangurinn. Þetta eru Loftslagsmælir Festu sem er öllum aðgengilegur án endurgjalds á heimasíðu Festu, nýtt kennslumyndband um notkun hans sem Sævar Helgi Bragason les yfir, nýútkomið fræðslumyndband með reynslusögum 5 fyrirtækja og handbók um innleiðingu loftslagsstefnu í hverskyns rekstur sem kemur út í næsta mánuði."

Ánægjulegt er hve mikill áhugi fyrirtækja er á verkefninu og er frábært að sjá hversu mörg fyrirtæki skráðu sig og með fjölbreytta starfsemi. Þau sem skrifuðu undir eru:

  • Glacier Adventure
  • Rósa­berg ehf, jarð­verk­tak­ar
  • Nátt­úru­stofa Suð­aust­ur­lands
  • Fall­astakk­ur/Glacier Jour­ney ehf
  • Há­skóli Ís­lands – Rann­sókna­set­ur á Horna­firði
  • Fram­halds­skól­inn í Aust­ur-Skafta­fells­sýslu
  • RARIK ohf.
  • Ís­lands­hót­el hf. – Foss­hót­el Vatna­jök­ull og Foss­hót­el Jök­uls­ár­lón
  • Nýheim­ar þekk­ing­ar­set­ur
  • Brunn­hóll gisti­heim­ili
  • Medial, lög­manns­þjón­usta
  • Höfn Local Gui­de
  • Konn­ekt ehf.
  • Hót­el Höfn
  • Festi hf – N1 í Horna­firði
  • Vatna­jök­uls­þjóð­garð­ur
  • Veit­inga­stað­ur­inn Úps
  • Raf­horn (raf- og fjar­skipta­þjón­usta)
  • Hót­el Jök­ull
  • Ís­lenska Gáma­fé­lag­ið