Undirritun viljayfirlýsingar milli Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Leigufélagsins Bríetar
Í síðustu viku hittust Sigurjón Andrésson bæjarstjóri og Helgi Haukur Hauksson framkvæmdastjóri Leigufélagsins Bríetar og undirrituðu viljayfirlýsingu um yfirtöku eigna og uppbyggingu leiguíbúða í sveitarfélaginu.
Viljayfirlýsingin kveður á um það að Leigufélagið Bríet mun yfirtaka átján íbúðir í eigu sveitarfélagsins ásamt því að skuldbinda sig til uppbyggingar á nýjum leiguíbúðum í sveitarfélaginu á næstu mánuðum. Í stað íbúða sem lagðar verða inn í leigufélagið eignast sveitarfélagið eignarhlut í Leigufélaginu Bríet.
Leigufélagið Bríet er óhagnaðardrifið, sjálfsstætt starfandi leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Markmið þess er að styrkja og auka öryggi á langtímaleigumarkaði með áherslu á landsbyggðina ásamt því að koma að uppbyggingu leiguíbúða á starfssvæði sínu. Nú þegar telur eignasafn félagsins yfir 400 fasteignir í 38 sveitarfélögum.
Markmið samstarfs sveitarfélagsins og leigufélagsins Bríetar er að styrkja stöðu leigjenda í sveitarfélaginu og stuðla að heilbrigðari og hagkvæmari leigumarkaði. Fyrir utan aðkomu Bríetar er einnig stefnt að því að íbúðir í Íbúðafélagi Hornafjarðar muni ganga inn í íbúðafélagið Brák á næstunni og stendur sú vinna yfir. Með þessum verkefnum vonast sveitarfélagið til að ná fram hagræðingu í rekstri með minnkun á eignasafni sínu, á sama tíma og staða leigjenda er styrkt með tilliti til stöðu þeirra og fjárhags, fjölbreytni í leigumöguleikum er aukin, samkeppni á leigumarkaði eykst og húsnæðisframboð batnar með tilkomu uppbyggingarverkefna.
Íbúar í þeim eignum sem falla undir yfirtökuna munu á næstu dögum fá upplýsingabréf um þær breytingar sem munu verða samhliða flutningi á eignarhaldi. Mikilvægt er þó að taka fram að engum leigusamningum verður sagt upp við yfirtökuna og stefnt er að því að breyting á leiguverði fari fram í áföngum ef til hennar kemur.
Við horfum björtum augum á samstarfið og bjóðum Leigufélagið Bríet hjartanlega velkomið með starfsemi sína til Hornafjarðar og vonumst til að samstarfið verði farsælt og gjöfult fyrir alla.