Ungmennaþing
Ungmennaráð Hornafjarðar stóð fyrir Ungmennaþingi í Nýheimum í dag. Yfirskrift þingsins í ár er Ungt fólk og samfélagið og markmiðið er að efla samfélagsvitund ungs fólks.
Allir nemendur FAS eru boðaðir á þingið ásamt 8. – 10. bekk í grunnskóla Hornafjarðar. Þingið hófst á fyrirlestri frá Stígamótum og að honum loknum voru fjórar málstofur sem fjölluðu um fjölbreytileikann, félagslíf, umhverfis- og skipulagsmál og í síðustu málstofunni voru umræður út frá fyrirlestrinum. Það er óhætt að segja að vel hafi tekist til og skemmtilegar og málefnalegar umræður áttu sér stað í málstofunum.
Ungmennaráð mun vinna úr gögnunum sem var safnað saman og í framhaldinu kynna þær fyrir viðeigandi nefndum sveitarfélagsins, sem og skólunum.
Á þinginu kusu ungmennin einnig fulltrúa í ráðið frá grunnskólanum og þá var unnið að því að finna slagorð Ungmennráðs
Í lok þingsins bauð Ungmennaráð í pizzuveislu og að sjálfsögðu gerðu þinggestir pizzunum góð skil.