• Skjamynd-2024-09-11-103545

Upptökur af málþingi og ávörp­um frá Samgönguhátíð

11.9.2024

Vegagerðin og sveitarfélagið Hornafjörður stóðu fyrir málþingi og hátíðahöldum þann 30. ágúst 2024 í tilefni af 50 ára afmæli Hringvegarins. Í júlí 1974 var Skeiðarárbrú, lengsta brú landsins, vígð á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Bygging brúarinnar þótti verkfræðilegt þrekvirki á sínum tíma. Með henni var lokið við Hringveginn sem eftir það tengdi byggðirnar umhverfis Ísland í samfellda heild.

Málþing í Hofgarði

Málþingið var vel sótt en um 120 manns heimsóttu Hofgarð þann daginn og gæddu sér á kjötsúpu á meðan erindum stóð. Erindin voru bæði fróðleg og skemmtileg frá öllum fjórum frummælendum undir fundarstjórn Borgþórs Arngrímssonar.

Rögnvaldur Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, sagði frá minningum sínum af framkvæmdunum við Skeiðarárbrú.

Sjá erindi hér:                                                                                                              Minningar af Skeiðarársandi. Rögnvaldur Gunnarsson

Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, greindi frá þeim áskorunum sem síbreytilegur Skeiðarársandurinn hefur verið fyrir vegagerð og horfði einnig til framtíðar.

Sjá erindi hér:                                                                                                          Síbreytilegur Skeiðarársandur, áskoranir í 50 ár. Guðmundur Valur Guðmundsson

Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, leiðsögumaður og fjallamennskukennari, frá Svínafelli, las hluta úr sögu Þórbergs Þórðarsonar; Vatnadagurinn mikli, sem segir frá ævintýralegri ferð yfir Skeiðará.

Sjá erindi hér:                                                                                                                    Fellum ei niður þróttinn sterka. Svanhvít Helga Jóhannsdóttir

Hallgrímur Helgason hélt líflega ræðu um líf og störf föður síns, Helga Hallgrímssonar, sem var yfirverkfræðingur á þeim tíma sem brúin var byggð og síðar vegamálastjóri.

Sjá erindi hér.                                                                                                                       Faðir minn, sandurinn. Hallgrímur Helgason

Hátíð á Skeiðarársandi

Að loknu málþinginu var haldið að vesturenda gömlu Skeiðarárbrúarinnar þar sem haldin var hátíð í tilefni af hálfrar aldar afmæli brúarinnar og Hringvegarins. Lúðrasveit Hornafjarðar setti tóninn og spilaði lag við upphaf hátíðarinnar áður en ræðumenn tóku við og fluttu fjögur ávörp í tilefni dagsins

 Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, lýsti vel hátíðarhöldunum fyrir fimmtíu árum. 

Ávarp Bergþóru Þorkelsdóttur

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar fagnaði tímamótunum og hvatti ráðamenn áfram til dáða varðandi frekari samgöngubætur. 

Ávarp Sigurjóns Andréssonar

Pálína Þorsteinsdóttir frá Svínafelli í Öræfum, dóttir Þorsteins Jóhannssonar (1918-1998), bónda, skálds og vegavinnuverkstjóra rifjaði upp æskuminningar frá þeim tíma sem Skeiðarárbrú var í byggingu.

Ávarp Pálínu Þorsteinsdóttur

 Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Hnappavöllum í Öræfum fór með ljóð eftir Þorstein frá Svínafelli.

Ávarp Gunnþóru Gunnarsdóttur

Að loknum ávörpum söng Öræfingakórinn vel valin lög og að því loknu var gengið upp á brúna með lúðrasveit Hornafjarðar í fararbroddi. Að lokum var boðið upp á hressingu undir brúnni og klifurfélag Öræfinga sýndi listir sínar.

Sveitarfélagið þakkar vegagerðinni gott samstarf, gestum fyrir komuna og öllum þeim sem komu að hátíðinni á einn eða annan hátt.