Varptími fugla er að hefjast!
Íbúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar hafa þau forréttindi að búa í nágrenni við miklar náttúruperlur þar sem meðal annars fuglalíf er alltumlykjandi.
Það er á þessum tíma árs þar sem varptími fugla fer af stað að fuglarnir eru sérstaklega útsettir fyrir rándýrum, þar með talið eru kettir. Höfn, þar sem líklega flestir kettir sveitarfélagsins búa er á milli tveggja svæða sem tilnefnd eru á framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár, meðal annars vegna verndunar á fuglum, en það eru Skarðsfjörður og Hornafjörður.
Skorað er á kattaeigendur að halda köttum sínum inni yfir varptímann. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Á varptíma er því afar mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og þá sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kragar er betri vörn en engin, en lang best er að halda þeim inni.
Kattakragar hafa verið að gefa góða raun við fælingarmátt. Kragarnir eru í skærum litum og gera það að verkum að rándýrinu tekst síður að læðast að bráðinni, þar sem fuglar sjá skæra liti mjög vel. Rannsóknir sýna að kettir með kraga drepa allt að 19 sinnum færri fugla en kettir sem eru ekki með kraga. Þá hafa kragar sem eru marglitir (regnbogalitir) gefið betri árangur en rauðir eða gulir.
Samkvæmt 8.gr í samþykkt um kattahald er það skylda kattaeigenda að taka tillit til fuglalífs á varptíma. Mælst er til þess að kattaeigendur taki ábyrgð sína alvarlega og leggi sig fram við að lágmarka skaðann sem verður af lausagöngu katta.
Anna Ragnarsdóttir Pedersen umhverfisfulltrúi.