Veiga kemur til Hafnar "Á móti straumnum"
Píeta samtökin vekja athygli þína á verkefni Veigu Grétarsdóttur, sem hún kallar „Á móti straumnum“ eða „Against the current“ og óska eftir áheitum frá fyrirtækum.
Verkefnið felst í því að Veiga rær á sjókajak umhverfis Ísland og fer rangsælis hringinn, á móti straumnum. Með þessu verkefni er Veiga að láta gamlan draum rætast og safnar í leiðinni áheitum fyrir Píeta samtökin sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða.
Veiga er fyrsta manneskjan til að róa hringinn rangsælis, sem er á margan hátt táknrænt en ásamt því að vera fyrsta íslenska konan til að róa hringinn er hún mögulega fyrsta transkonan í heiminum til að reyna slíkt afrek.
Róðurinn hófst 14. maí frá Ísafirði og þegar á Höfn er komið er ferðin hálfnuð. Veiga lagði af stað frá Vík í Mýrdal snemma í morgun og þar með leggur hún upp í erfiðasta kafla leiðarinnar sem er suðurströnd Íslands, á milli Víkur og Hafnar.
Veiga gerir ráð fyrir að vera á Höfn á laugardaginn eða sunnudaginn, en erfitt er að vera nákvæmur með tímasetningar í slíku verkefni þar sem veður og vindar ráða alveg för. Hún mun halda fyrirlestur á staðnum þar sem hún fjallar um kynleiðréttingarferlið.