Verðmætin í Vatnajökulsþjóðgarði

18.8.2017

Sumarið 2008 varð langþráður draumur margra um Vatnajökulsþjóðgarð að veruleika, þegar skrifað var undir stofnun þjóðgarðsins þann 7. júní við hátíðlega athöfn í Skaftafelli.

Á þeim níu árum sem eru liðin frá stofnuninni hefur Vatnajökulsþjóðgarður fest sig í sessi bæði í hugum landsmanna sem og gesta okkar sem sækja þjóðgarðinn heim. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur frá upphafi verið virkur þátttakandi í starfi vegna þjóðgarðsins, og var því enn einni rós bætt í hnappagatið þann 25. júlí síðast liðinn er Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði friðlýsingu Jökulsárlóns og nálægra svæða sem liggja að lóninu. Svæðið einkennist af jöklalandslagi auk þess sem Jökulsárlón er heimsþekkt fyrir mikla náttúrufegurð. Unnið var að friðlýsingunni í kjölfar kaupa íslenska ríkisins á jörðinni Felli í Suðursveit í janúar síðast liðnum, en með friðlýsingunni var svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð sem er nú 14.141 km²  að flatarmáli. Svæðið sem nú var friðlýst er allt innan Sveitarfélagsins Hornafjarðar og eru því tæp 60% af flatarmáli sveitarfélagsins, eða 3521 km² af 6309 km² sem er heildarstærð þess, nú innan Vatnajökulsþjóðgarðs.   

Við friðlýsinguna nær þjóðgarðurinn yfir landssvæði frá fjöllum og niður í fjöru, og það til viðbótar við stórkostlega náttúru svæðisins, styrkir þá vinnu sem þegar er hafin við að tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs sem náttúruminja á heimsminjaskrá UNESCO.  

Sama hvað þeirri vinnu líður þá er ljóst að framundan er stórfelld uppbygging sem miðar að því að samræma stjórnun og verndun á svæðinu enda hefur gestakomum fjölgað hratt á svæðinu undanfarin ár. Fjölgunin nær yfir allt árið og stefnir nú í að um ein milljón manns sæki svæðið heim á ári sem er tvöföldun frá árinu 2015. Er því brýnt að hefjast strax handa við að styrkja innviði á svæðinu, til að mynda með uppbyggingu gönguleiða, þjónustumiðstöð, upplýsingagjöf og varanlegri salernisaðstöðu. Er uppbyggingin ekki síst mikilvæg til auka öryggi jafnt gangandi sem akandi vegfarenda, enda liggur þjóðvegur 1 um þetta stórbrotna svæði þar sem flestir vilja staldra við og njóta. Mun þekking og reynsla starfsmanna þjóðgarðsins eflaust nýtast vel við að byggja upp og þjónusta viðeigandi innviði, enda hefur starfsemi þeirra verið til mikils sóma. 

Óskar Sveitarfélagið Hornafjörður öllum hlutaðeigandi innilega til hamingju með friðlýsinguna og fagnar því framfaraskrefi sem hér er stigið. Telur það einnig að þetta muni styðja við framtíðaruppbyggingu á þeirri ævintýra- og yndisferðamennsku sem hér blómstrar.

 

Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar