Verksmiðjan 2019

16.1.2019

Síðasta vor hittust nokkrir aðilar í Vestmannaeyjum með því markmiði að auka áhuga ungmenna á nýsköpun, tækni og forritun.

Þessir aðilar voru starfsmenn Fab Lab Íslands, RÚV, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Vísindasmiðja Háskóla Íslands, Vísindalestin og Kóðinn. Það kom fljótlega í ljós að þarna væri kominn hópur sem gæti unnið vel saman og virkilega haft áhrif.


Á fundinum í Eyjum kynnti ég Fab Lab smiðjuna á Hornafirði og þau verkefni  sem við höfum verið að vinna. Sýndi kennsluefni sem við höfum verið að búa til, þar á meðal forritunarkennsluefni. Einnig var ég með kynningu á Vírdós, sýndi myndir af verkefnum og hvernig hugmyndin hefði þróast yfir í tónlistarhátíð óvenjulegra hljóðfæra. Þessi kynning vakti mikinn áhuga hjá hópnum og spurningar vöknuðu hvort hægt væri að láta hljóðfærasmíði verða partur af verkefninu.

Eftir fundinn fór allt á fullt að móta verkefnið og útkoman varð Verksmiðjan 2019.  Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13 til 16 ára þar sem hugmyndir þeirra og uppfinningar verða að veruleika. Nemendur skila hugmyndum inn á einfalt form inn á þessari vefslóð. http://ungruv.is/verksmidjan/ . Síðan eru valdar 30 hugmyndir og þeim gerð góð skil í nokkrum sjónvarpsþáttum sem sýndir verða á UngRÚV og einnig á netinu. Tónlistarmaðurinn Daði Freyr og leikkonan Berglind Alda verða þáttarstjórnendur.  Hlutverk Fab Lab smiðjanna um landið verður að styðja við þær 30  hugmyndir sem verða valdar. Hér á Höfn munum við einnig vinna með Daða Frey að búa til hljóðfæri í Vírdós stíl. Það er gríðarlega spennandi verkefni fyrir okkur og tækifæri til þess að deila þekkingu út til samfélagsins og kynna það sem við höfum verið að grúska. Grunnskóli Hornafjarðar tók mjög vel í verkefnið og byrjuðum við strax að kynna það fyrir nemendum rétt fyrir jólafrí.

Ég hvet alla sem vilja á aldrinum 13-16 ára að taka þátt og skrá inn sína hugmynd eða hugmyndir og senda inn í keppnina. Við munum halda áfram að kynna verkefnið í grunnskólanum og á landsvísu en skilafrestur er til 7. febrúar.

Áfram nýsköpun!
Kveðja Vilhjálmur Magnússon
Forstöðumaður Vöruhúss