Yfirfærsla heilsugæslu og sjúkraflutninga til HSU

20.4.2020

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins bókaði um yfirfærslu heilsugæslu og sjúkraflutninga yfir til HSU. 

Frá því í október 2019 hafa staðið yfir samningaviðræður við stjórnendur HSU um rekstur heilbrigðisþjónustu á Hornafirði. Það lá fyrir í kjölfar ákvörðunar heilbrigðisráðherra Svandísar Svavarsdóttur að ekki yrði áframhald á samskonar samningi um rekstur heilbrigðisþjónustu og hefur verið í gildi síðan árið 1996. Samningaviðræður hafa verið í gangi síðustu vikur og þokast í rétta átt. Unnið er að því að semja við stjórnendur HSU um rekstur sjúkrarýma og heimahjúkrunar ásamt samstarfi um ýmsa þætti starfseminnar.  
Þann 1. apríl síðastliðinn færðust heilsugæsla og sjúkraflutningar yfir til HSU. Þetta var erfiður dagur fyrir starfsfólk sem hefur verið undir miklu álagi vegna Covid faraldursins en breytingar sem þessar eru alltaf erfiðar.
Bæjarstjórn vill því nota tækifærið og þakka fyrir frábært samstarf á undanförnum árum og óskar starfsfólki velfarnaðar hjá nýjum vinnuveitanda. Jafnframt er bæjarstjórn sannfærð um að samstarfið verði áfram gott og mun vinna með nýjum stjórnendum HSU til að ná því markmiði.